Aron Guðmundsson skrifar frá Tel Aviv, Ísrael.
Leikurinn markar upphaf á nýjum kafla í íslenskum fótbolta en Breiðablik er fyrsta íslenska liðið til að spila í riðlakeppni í Evrópu.
Blikar mættu hingað til Tel Aviv seint á þriðjudagskvöld eftir langt flug en hér í borginni hefur liðið geta hreiðrar vel um sig á Carlton hótelinu, fimm stjörnu lúxushóteli við strandlengju Tel Aviv. Kjörinn staður til þess að endurnæra líkama og sál fyrir komandi átök gegn heimamönnum í Maccabi Tel Aviv í kvöld.
Carlton hótelið er eins og fyrr segir fimm stjörnu lúxushótel með sundlaug og heita potta úti á fimmtándu hæð, sem jafnframt er efsta hæð hótelsins en þar er hægt er að njóta magnaðs útsýnis. Þá er einnig að finna heilsulind á hótelinu.
Í lýsingu á Booking.com um Carlton hótelið segir:
„Hotel Carlton er staðsett við smábátahöfnina í Tel Aviv og státar af þakverönd með sundlaug og útsýni yfir hafið. Herbergin eru með sérsvalir með útsýni yfir hafið eða borgina.“
Hér fyrir neðan má sjá myndir frá Carlton hótelinu í Tel Aviv sem Breiðablik heldur til á:







Leikur Maccabi Tel Aviv og Breiðabliks hefst klukkan sjö í kvöld og verður sýndur í beinni útsendingu á Vodafone Sport. Við verðum á staðnum og færum ykkur allt það helsta frá Tel Aviv.