Aron Guðmundsson skrifar frá Tel Aviv, Ísrael
Maccabi Tel Aviv á sér langa sögu, félagið var upphaflega stofnað árið 1906, þá sem HaRishon Le Zion-Yafo, og er elsta sem og sigursælasta ísraelska fótboltaliðið frá upphafi með fjölda titla á ferilskránni og spilar heimaleiki sína nú á Bloomfield leikvanginum í Tel Aviv, leikvangur sem tekur tæplega 29 þúsund áhorfendur í sæti.
Sigurhefðin er eins og fyrr segir mikil en undanfarin tvö tímabil hafa ekki verið jafn gjöful og stuðningsmenn Maccabi Tel Aviv hafa vanist í gegnum áratugina og enginn titill skilað sér í hús.

Maccabi Tel Aviv varð síðast ísraelskur meistari tímabilið 2019-2020 en tímabilið þar á eftir vann liðið ríkisbikarinn, Toto bikarinn og Ofurbikarinn í Ísrael. Á sama tíma gerði liðið vel í Evrópukeppni og komst alla leið í 32-liða úrslit Evrópudeildarinnar en féll þar úr leik gegn úkraínska liðinu Shakhtar Donetsk
Ör þjálfaraskipti
Ef maður rýnir aðeins í stöðuna undanfarin ár hjá Maccabi Tel Aviv verður manni fljótt ljóst að reynt hefur á þolinmæðina hjá forráðamönnum félagsins, sem hafa oftar en ekki í þeirri stöðu ákveðið að fara í þjálfarabreytingar.
Frá árinu 2020, ári eftir að Maccabi Tel Aviv varð síðast ísraelskur meistari, hefur alls sex sinum verið skipt um þjálfara hjá liðinu.
Sjö mismunandi þjálfarar á alls tæpum þremur árum er ansi vel í lagt en nú vonast forráðamenn Maccabi Tel Aviv til þess að rétti maðurinn sé í brúnni. Fyrrum goðsögn úr ensku úrvalsdeildinni var ráðinn inn í júní fyrr á þessu ári.

Írinn sem skoraði mörkin
Það var seinnipart júnímánaðar á þessu ári sem greint var frá því að markahrókurinn Robbie Keane, fyrrum leikmaður í ensku úrvalsdeildinni með liðum á borð við Tottenham, Liverpool og West Ham United, hefði verið ráðinn þjálfari Maccabi Tel Aviv á þriggja ára samningi.
Keane er ekki með mikla reynslu á bakinu sem aðalþjálfari, í raun bara hjá einu félagsliði fyrir komuna til Tel Avív yfir stutt tímabil sem þjálfari indverska liðsins ATK sem hann hafði áður spilað fyrir undir stjórn Teddy Sheringham.

Þá hefur hann einnig starfað sem aðstoðarþjálfari hjá írska landsliðinu, enska B-deildar liðinu Middlesbrough og þá var hann hluti af þjálfarateymi Sam Allardyce hjá Leeds United undir lok síðasta tímabils í ensku úrvalsdeildinni.
Keane hefur farið afar vel af stað í Ísrael sem þjálfari Maccabi Tel Aviv og á liðið enn eftir að tapa leik undir hans stjórn en alls hefur Keane stýrt liðinu í tólf leikjum ef æfingarleikir eru meðtaldir.
Sem stendur er Maccabi Tel Aviv á toppi ísraelsku úrvalsdeildarinnar með sjö stig eftir fyrstu þrjá umferðirnar
Tvisvar í riðlakeppni Meistaradeildarinnar
Maccabi Tel Aviv hefur mun meiri Evrópureynslu heldur en Breiðablik sem fer nú í fyrsta sinn í riðlakeppni í Evrópu. Það sama má í raun segja um öll önnur lið í Sambandsdeildinni þetta árið, nema kannski fyrir utan frændur okkar í KÍ Klaksvík.
Í tvígang hefur Maccabi Tel Aviv átt sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu, það var tímabilin 2004/05 og 2015/16 og þá hefur liðið einnig í þrígang átt sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Þar hefur liðið lengst náð í 32-liða úrslit, tímabilið 2020/21. Þá fór Maccabi Tel Aviví umspil fyrir útsláttarkeppni Sambandsdeildarinnar tímabilið 2021/22.

Maccabi Tel Aviv fór í gegnum þrjár umferðir í undankeppni Sambandsdeildarinnar fyrr í sumar og bar þar sigur úr býtum í einvígum sínum gegn Petrocub, AEK og nú síðast Celje.
Með ref fram á við sem hatar ekki að skora mörk
Einn af þeim leikmönnum Maccabi Tel Aviv sem leikmenn Breiðabliks verða að hafa góðar gætur á er markahrókurinn reyndi, Eran Zahavi fyrirliði Maccabi Tel Aviv.
Þrátt fyrir að vera orðinn 36 ára gamall hefur Zahavi sýnt það undanfarið að hann býr yfir einstaklingsgæðum sem geta gert út um leiki.
Nú þegar á yfirstandandi tímabili er Zahavi búinn að koma að átta mörkum í átta leikjum, skora sjö og leggja upp eitt.

Þessi þaulreyndi leikmaður er markahæsti leikmaður ísraelska landsliðsins frá upphafi. Zahavi, sem hefur lagt landsliðsskóna á hilluna, spilaði alls 70 A-landsleiki og skoraði 33 mörk fyrir landslið Ísrael.
Zahavi hefur í gegnum sinn feril, með liðum á borð við Palermo, PSV Eindhoven, Guangzhou City sem og Hapoel- og Maccabi Tel Aviv, komist í vana með það að raða inn mörkum.
555 leikir á atvinnumannastigi, 329 mörk og 92 stoðsendingar er tölfræðin sem býr að baki spilamennsku Zahavi.
Á síðasta tímabili fór hann fyrir liði Maccabi Tel Aviv, skoraði 26 mörk í 40 leikjum og kom alls að 29 mörkum
Leikur Maccabi Tel Aviv og Breiðabliks hefst klukkan sjö annað kvöld og verður sýndur í beinni útsendingu á Vodafone Sport. Við verðum á staðnum og færum ykkur allt það helsta frá Tel Aviv.