Ný lægð þokast í áttina að landinu frá Grænlandshafi og gengur þá í suðaustan stinningskalda eða allhvassan vind með talsverðri rigningu á Suður- og Vesturlandi. Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofunnar í dag. Hann tekur þó fram að í kvöld eigi að lægja og draga úr vætu.
Norðaustantil á landinu verður hægari vindur og þar fer að rigna síðdegis.
Á morgun er svo útlit fyrir rólega suðaustanátt og skúri á víð og dreif, en rigningu austast. Veður verður nokkuð milt og hitastig gæti náð fimmtán gráðum á Austurlandi.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á mánudag:
Norðaustan 10-18 m/s við norðurströndina og á Vestfjörðum, en yfirleitt hægari vindur í öðrum landshlutum. Víða talsverð rigning, einkum um landið norðan- og austanvert, en þurrt að kalla á Suðvesturlandi. Hiti 6 til 12 stig.
Á þriðjudag:
Norðaustanátt, víða 10-18 og rigning í flestum landshlutum en talsverð úrkoma fyrir austan. Dregur úr úrkomu seinnipartinn. Hiti 5 til 10 stig.
Á miðvikudag:
Minnkandi norðaustanátt, 5-13 um kvöldið. Dálítil rigning, en yfirleitt þurrt sunnan- og vestanlands. Hiti 4 til 11 stig, mildast við suðurströndina.
Á fimmtudag:
Norðlæg átt og dálitlar skúrir eða él á Norður- og Austurlandi, en bjartviðri suðvestanlands. Hiti 1 til 8 stig, mildast syðst.
Á föstudag:
Norðaustanátt og stöku skúrir eða él á Norður- og Austurlandi. Annars breytileg átt og yfirleitt úrkomulítið, en lítilsháttar væta syðst á landinu. Hiti breytist lítið.