„Ef ég tala fyrir sjálfan mig þá er ég mjög spenntur fyrir þessu verkefni,“ segir Kristall Máni. „Framundan er fyrsti leikur í riðlinum, við erum búnir að taka nokkra æfingaleiki í aðdraganda þessa leiks og hlutirnir hafa gengið fínt hjá okkur.“
Hann metur riðilinn, sem Ísland er í ásamt Danmörku, Wales, Tékklandi og Litháen, sem mjög jafnan riðil.
„Ég myndi segja það já, það er ekkert eitt lið sem á að fara stinga af. Þetta verða margir jafnir leikir og ég er spenntur fyrir því að spila á móti þessum liðum.“
Setjið þið þá kröfu á ykkur að klára þennan leik á morgun með sigri?
„Já klárlega. Við setjum þá kröfu á okkur á móti hvaða liði sem er, sérstaklega á heimavelli. Þetta er heimavöllurinn okkar og hér viljum við alltaf taka stigin þrjú.“
Hefur fundið sína fjöl á ný
Kristall Máni gekk til liðs við lið Sønderjyske, sem spilar í næstefstu deild í Danmörku, fyrir komandi tímabil eftir ansi erfiðan og krefjandi tíma hjá norska úrvalsdeildarfélaginu Rosenborg.

Í Danmörku hefur honum tekist að finna leikgleðina á nýjan leik, skorað tvö mörk og gefið eina stoðsendingu í átta leikjum.
Á dögunum setti Kristall inn færslu á samfélagsmiðlinum X og þar stóð: „Gott að finna aftur hvað þessi íþrótt er falleg.“
Gott að finna aftur hvað þessi íþrótt er falleg pic.twitter.com/x8hgVKKr1G
— Kristall Máni Ingason (@KristallMani) August 23, 2023
Aðspurður hvernig honum liði hjá Sønderjyske, stóð ekki á svörum hjá þessum hæfileikaríka leikmanni.
„Mér líður mjög vel þar. Þetta hefur allt smollið vel saman og gengið vel. Sønderjyske er í litlum bæ en það er bara heimilislegt og við erum með hörku lið í höndunum. Vonandi náum við bara að tryggja okkur upp og spila í betri deild á næsta ári.
Leikur Íslands og Tékklands í undankeppni EM 2025 verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Við hefjum beina útsendingu frá Víkingsvelli klukkan 16:20.