Innlent

Ungt fólk geti leitað sér aðstoðar

Bjarki Sigurðsson skrifar
Sigríður Björk Þormar, formaður stjórnar Píeta-samtakanna.
Sigríður Björk Þormar, formaður stjórnar Píeta-samtakanna. Vísir/Sigurjón

Formaður stjórnar Píeta-samtakanna hefur þungar áhyggjur af hárri tíðni sjálfsvíga meðal ungs fólks á Íslandi. Alþjóðlegur dagur sjálfsvígsforvarna er í dag. 

Lönd um allan heim taka þátt með því að vekja athygli á sjálfsvígsforvörnum og því sem sjálfsvígsmál snúast um. Var samvinnuverkefnið Gulur september stofnað í kringum daginn og er allur mánuðurinn nýttur í að auka meðvitund fólks um mikilvægi geðræktar og sjálfsvígsforvarna.

Formaður stjórnar Píeta-samtakanna, Sigríður Björk Þormar, segir það sérstaklega mikið áhyggjuefni hve margt ungt fólk, þá sérstaklega ungir karlmenn, svipti sig lífi.

„Auðvitað eru margir þættir sem koma að, það geta verið umhverfislegir þættir, erfðaþættir, aðstæður sem myndast, skortur á þessu sem maður kallar bjargráð eins og það að kunna að takast á við líðan og streitu. Hvatvísi stundum,“ segir Sigríður.

Hún kallar eftir því að unga fólkið sé gripið fyrr og fái betri fræðslu.

„Bæði um hvað það þýðir að upplifa sjálfsvígshugsanir og hvað maður getur gert þegar manni líður þannig. Oft eru þau hrædd um að segja frá og vita ekki alveg hvernig þau eiga að segja frá þessari líðan. Hjálpa þeim að skilja betur líðanina og hvað þau geta gert til að leita sér aðstoðar, vinna með tilfinningarnar sínar sjálf,“ segir Sigríður. 

Í kvöld fara fram tónleikar á vegum Píeta-samtakanna á Kex Hostel í miðbæ Reykjavíkur. Fram koma listamennirnir Kaktus Einarsson, Kvikindi, Systur og gugusar.


Tengdar fréttir

Versti dagur lífs míns

Versti dagurinn okkur er alltaf settur í samhengi við það sem okkur finnst erfitt þá stundina en það eru sumir sem upplifa versta dag lífs þíns og það er sannarlega þegar þau fá fréttir um að náinn ættingi og hvað þá barnið þeirra hafi tekið eigið líf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×