Harvey Barnes lék um árabil með Leicester í ensku úrvalsdeildinni en var í sumar keyptur af Newcastle eftir að Leicester féll niður í næst efstu deild. Barnes hefur byrjað ágætlega fyrir lærisveina Eddie Howe og skoraði meðal annars í 5-1 sigri liðsins á Aston Villa í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar.
Tækifærin með enska landsliðinu hafa hins vegar verið af skornum skammti hjá Barnes sem á fjölmarga leiki að baki með yngri landsliðum. Hann lék einn landsleik árið með Englandi gegn Wales árið 2020 þar sem hann kom inn sem varamaður en hefur ekki verið valinn síðan þá.
Harvey Barnes considering switching from England to Scotland.
— Footy Accumulators (@FootyAccums) September 10, 2023
[The Times] pic.twitter.com/De3MBX06RO
Nú greinir Daily Mail hins vegar frá því að Barnes íhugi að færa sig um set í landsliðsboltanum. Afi hans og amma í móðurætt eru frá Skotlandi og Barnes gæti spilað fyrir skoska landsliðið í framtíðinni.
Skotar hafa spilað frábærlega í undankeppni Evrópumótsins og hefur unnið sigur í öllum fimm leikjum sínum í riðlinum til þessa. Meðal annars 2-0 sigur á Spánverjum í mars.
Svo skemmtilega vill til að Skotland og England mætast í æfingaleik á þriðjudag og verður forvitnilegt að sjá hvort Barnes lætur sjá sig á leiknum og þá hvoru megin í stúkunni hann verður.