Handbolti

Þrír ís­lenskir þjálfarar í eld­línunni í Þýska­landi

Smári Jökull Jónsson skrifar
Guðjón Valur er þjálfari Gummersbach.
Guðjón Valur er þjálfari Gummersbach. Twitter@vfl_gummersbach

Tveimur leikjum er lokið í þýsku úrvalsdeildinni í handknattleik í dag. Íslendingaliðið Gummersbach náði í jafntefli eftir æsispennandi lokamínútur gegn Hannover-Burgdorf.

Tveimur leikjum er lokið í þýsku úrvalsdeildinni í handknattleik og voru nokkrir Íslendingar í eldínunni í leikjum kvöldsins.

Gummersbach tók á móti Hannover-Burgdorf á heimavelli sínum. Elliði Snær Viðarsson var á sínum stað í liði Gummersbach og lét til sín taka bæði í vörn og sókn. Guðjón Valur Sigurðsson er þjálfari Gummersbach og Heiðmar Felixson er við stjórnvölinn hjá Hannover-Burgdorf.

Gestirnir frá Hannover-Burgdorf voru með yfirhöndina nær allan leikinn í dag. Liðið náði fjögurra marka forskoti í síðari hálfleik en undir lokin beit Gummersbach vel frá sér og tókst að jafna metin í 32-32 þegar tæpar tvær mínútur voru eftir.

Skömmu síðar fékk Ellið Snær síðan rautt spjald og Gummersbach því einum færra á síðustu mínútu leiksins. Hannover-Burgdorf var ekki lengi að nýta sér liðsmuninn og koma sér yfir á ný en Gummersbach tókst að jafna á ný og tryggja sér 33-33 jafntefli.

Elliði Snær skoraði tvö mörk fyrir Gummersbach í kvöld. Þetta voru fyrstu stigin sem Hannover-Burgdorf tapar í þýsku úrvalsdeildinni á tímabilinu en Gummersbach er með sigur, tap og jafntefli í fyrstu þremur leikjum sínum.

Í hinum leik kvöldsins tapaði Bergischer 28-27 á útivelli gegn Erlangen. Arnór Þór Gunnarsson er einn af þjálfurum Bergischer en hann lék um árabil með liðinu og lagði skóna á hilluna eftir síðasta tímabil.

Bergischer var með 26-23 forystu þegar skammt var eftir af leiknum en fór illa að ráði sínu undir lokin og tapaði að lokum með eins marks mun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×