Heimsmeistaramóti kvenna í Ástralíu og Nýja-Sjálandi lýkur um helgina þegar England og Spánn mætast í úrslitum á sunnudaginn. Infantino ræddi um mótið á blaðamannafundi í Sydney og sagði að konur þyrftu að halda áfram sinni baráttu í átt að jafnrétti.
„Hjá körlum og hjá FIFA muntu alltaf finna opnar dyr. Þetta snýst bara um að ýta aðeins á dyrnar,“ sagði Infantino.
Verðlaunafé HM kvenna þetta árið er 110 milljónir dollara, eða rúmlega 14,5 milljarðar íslenskra króna, sem er met. Það er hins vegar fjórfalt lægra en verðlaunaféð á HM karla sem haldið var í Katar í fyrra þar sem verðlaunaféð var 440 milljónir dollara, eða um 58,3 milljarðar króna.
„Jöfn laun á HM? Við stefnum þangað nú þegar,“ bætti Infantino við.
„En það mun ekki leysa neitt. Það væri kannski táknrænt, en það myndi ekki leysa neinn vanda af því að þetta er mót sem er haldið í einn mánuð á fjögurra ára fresti og aðeins örfáir leikmenn af þeim mörgþúsund sem spila leikinn.“
„Það sem ég segi við allar konur - og ég á fjórar dætur þannig ég er með nokkrar heima - að þið hafið valdið til að fá í gegn breytingar. Veljið réttar orrustur. Þið hafið valdið til að sannfæra okkur karlana um hvað það er sem við þurfum að gera og hvað við þurfum ekki að gera,“ sagði Infantino að lokum.