Júlíus Júlíusson framkvæmdastjóri Fiskidagsins mikla segir hátíðarhöld helgarinnar hafa gengið vel. Mikið hafi verið um að vera í bænum og þétt dagskrá á þremur sviðum. „Þetta gekk bara rosalega vel. Sama þegar ég fór á lögreglufund í morgun þá gekk mjög vel og ég er voðalega glaður,“ segir Júlíus.
Fjöldi gesta sé ekki kominn á hreint en líklegt sé að um þrjátíu þúsund manns hafi heimsótt bæinn.
„Dagurinn í gær var frábær og tónleikarnir og flugeldasýningin,“ segir Júlíu glaður í bragði. Vinur hans hafi heyrt mann sem stóð fyrir aftan hann segja:
„Vá, ég hef aldrei á ævi minni brosað jafn mikið á einum degi.“ „Það er voðalega gott fyrir okkur að heyra svona í lokin,“ segir Júlíus.

Gestir hátíðarinnar í ár hafi verið ansi snyrtilegir.
„Þegar ég horfði á mestan hluta bæjarins, langstærstan hluta bæjarins þá fékk ég aftur trú á mannkynið,“ segir Júlíus og bendir á að gestirnir hafi verið snyrtilegir og gengið vel um.
„Frábærir gestir og fólk gekk vel um og var að virða hvort annað.“ Þrátt fyrir að Fiskideginum mikla sé formlega lokið sé mikil vinna fyrir höndum.
Mikill frágangur sé eftir og skráning sem aðstoði við skipulagningu á Fiskideginum mikla að ári liðnu.
Að neðan má sjá myndir sem Viktor Freyr tók af tónleikagestum í gærkvöldi.












