Enski boltinn

„Þetta er það sem ég sá fyrir mér þegar ég valdi Arsenal“

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Himinlifandi.
Himinlifandi. vísir/Getty

Enski miðjumaðurinn Declan Rice gekk í raðir Arsenal í sumar frá West Ham og er ætlað lykilhlutverk á miðju Arsenal liðsins.

Hann var hátt uppi í kjölfar þess að hafa unnið sinn fyrsta titil með Arsenal í Samfélagsskildinum í dag þar sem Arsenal vann sigur á Englandsmeisturum Manchester City í vítaspyrnukeppni.

„Ég er í skýjunum. Þetta er það sem ég sá fyrir mér þegar ég valdi að koma hingað,“ sagði Rice, sigurreifur í leikslok.

„City veitti okkur þann leik sem við bjuggumst við en ég er svo ánægður. Maður verður að vera þolinmóður þegar maður spilar gegn þeim. Þú verður að vinna litlu einvígin út um allan völl á móti þeim eins og þjálfarinn sagði við okkur fyrir leik.“

„Það þýðir mikið fyrir mig að vinna í dag. Mér líður eins og ég hafi þroskast mikið á síðustu þremur vikum. Ég er að taka inn mikið af upplýsingum um það hvað stjórinn vill frá mér. Ég er æstur í að læra meira og bæta mig,“ sagði Rice.

Arsenal hafnaði í 2.sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð en liðið hefur ekki unnið deildina síðan 2004. Félagið pungaði út yfir 100 milljónum punda fyrir Rice og er honum ætlað að hjálpa liðinu að stíga skrefið stóra í átt að titlinum.

„Ég er viss um að við getum unnið hvað sem er á þessu tímabili, við þurfum bara að halda einbeitingu,“ sagði Rice.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×