Í tilkynningu frá Lögreglunni í Vestmannaeyjum segir að hún hafi haft í nægu að snúast gærkvöldi og nótt. Flest verkefni hafi verið tengd ölvun og fangageymslur hafi verið fullar um tíma.
Fjórtán fíkniefnamál hafi komið upp og í einu þeirra hafi maður verið grunaður um sölu. Að sögn Karls Gauta Hjaltasonar, lögreglustjórans í Vestmannaeyjum var aðeins um neysluskammta að ræða í hinum málunum þrettán. Sá sem grunaður er um sölu hafi gert hana út úr bænum en ekki inni í Herjólfsdal.
Ekki talið tengjast fyrra máli
Hann hafi verið handtekinn og fjörutíu grömm af kókaíni gerð upptæk. Miðað við verðkönnun SÁÁ frá því maí má reikna með að götuvirði efnisins sé um 660 þúsund krónur. Þá er ekki reiknað með hugsanlegu þjóðhátíðarálagi.
Í gær var greint frá því að fimmtán fíkniefnamál hafi komið upp á föstudag og einn hafi verið grunaður um sölu. Karl Gauti segir þann ekki hafa verið með jafnmikið magn og sá sem var handtekinn í gær og að ekki sé talið að málin tengist.
Eitt kynferðisbrot á borði lögreglu
Í tilkynningu segir að eitt kynferðisbrot hafi verið tilkynnt til lögreglu og að rannsókn málsins sé vel á veg komin. Karl Gauti segist ekki geta veitt frekari upplýsingar um málið.
Þá hafi tvær minniháttar líkamsárásir verið tilkynntar og einn stöðvaður grunaður um akstur undir áhrifum vímuefna.