Bergrós keppir í flokki sextán og sautján ára stelpna en Breki keppir í flokki fatlaðra, svokölluðum Upper Extremity flokki.
Bergrós hristi af sér mikið áfall á fyrsta degi þegar hún fékk hitaslag og sýndi þá mikla keppnishörku með því að halda áfram og klára daginn.
Bergrós er í sjöunda sætinu eftir fyrstu tvo dagana. Hún var í sjöunda sæti eftir fyrsta daginn en kom sér hæst upp í fjórða sætið með góðri frammistöðu í fyrstu grein gærdagsins.
Bergrós náði ekki að fylgja því eftir og varð sjötta og sjöunda í hinum tveimur greinum dagsins.
Hún deilir nú sjöunda sætinu með hinni bandarísku Rylee Beebe en báðar eru þær með 300 stig. Það eru samt bara fjörutíu stig upp í þriðja sætið og þrjátíu stig upp í fjórða sætið.
Trista Smith og Lucy McGonigle eru jafnar á toppnum með 510 stig en þær hafa sýnt mikla yfirburði í keppninni. Það er aftur á móti mikil keppni um það hver kemst á verðlaunapallinn með þeim.
Breki Þórðarson hefur verið í vandræðum á þessum heimsleikum og annar dagurinn var mjög þungur hjá honum.
Hann náði bæði öðru og fjórða sæti í fyrstu þremur greinunum en endaði neðstur í öllum þremur greinum gærdagsins.
Breki er langneðstur og það verður mjög erfitt fyrir hann að hækka sig á lokadeginum enda hundrað stigum á eftir manninum fyrir ofan sig.