Þetta segir í hugleiðingum veðurfræðings um veðrið í dag á vef Veðurstofunnar.
Hiti nær frá sjö stigum við norðausturströndina upp í átján stig suðvestanlands. Víða fimm til þrettán metrar á sekúndu.

Á Reykjanesskaga hefur vindur verið hægbreytilegur, en eftir hádegi eigi norðanátt að hafa völdin þar og beina mengun frá eldgosinu til suðurs.
Þá bætir heldur í úrkomu austanlands í kvöld. Á morgun verður hægari austlæg eða breytileg átt. Þá verður bjart með köflum á Vesturlandi, dálítil rigning á Suðausturlandi en skýjað með köflum og stöku skúrir inn til landsins. Hiti breytist lítið.
Veðurfræðingar segja lægð suður af Íslandi stjórna veðrinu á landinu um þessar mundir en um helgina missi hún tökin og fjarlægist. Þá taki við hæg breytileg átt á öllu landinu, bjart verði með köflum en skúrir á stöku stað. Þessi rólegheit í veðri eiga síðan að standa fram í næstu viku.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Svona verða horfurnar á landinu næstu daga samkvæmt Veðurstofunni:
Á laugardag: Austlæg eða breytileg átt 3-8 m/s, en 5-10 með suðurströndinni. Bjartviðri á Vesturlandi, rigning af og til á Suðausturlandi, en skýjað með köflum og stöku skúrir í öðrum landshlutum. Þokuloft við norður- og austurströndina. Hiti átta til átján stig, hlýjast á Vesturlandi, en svalast í þokunni.
Á sunnudag og mánudag: Hæg breytileg átt. Bjart með köflum á landinu, en skúrir á stöku stað. Þokubakkar við norður- og austurströndina. Hiti víða tólf til sautján stig að deginum, en mun svalara í þokunni.
Á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag: Hæg norðlæg eða breytileg átt. Skýjað að mestu en úrkomulítið norðan- og austanlands, en víða bjart sunnan- og vestanlands og líkur á skúrum, einkum síðdegis. Heldur kólnandi norðaustantil, en annars breytist hiti lítið.