Sport

Auð­mjúkur Anton á tíma­mótum: „Rosa­­lega til­­finninga­­þrungin stund“

Aron Guðmundsson skrifar
Anton Sveinn McKee
Anton Sveinn McKee

Ís­lenski sund­garpurinn Anton Sveinn McKee segir að eftir kafla­skipt ár hafi það verið til­finninga­þrungin stund fyrir sig að tryggja sig inn á Ólympíu­leikana í París 2024 í gær en um leið tryggði hann sér sæti í úr­slita­sundi á HM í 50 metra laug í Japan sem fram fer í dag.

„Það er ó­trú­lega sætt að hafa náð þessu,“ segir Anton Sveinn eftir afrek gærdagsins. „Undan­farið ár hjá mér hefur verið upp og niður. Það byrjaði vel en svo var maður dá­lítið þungur á sér mánuðina fyrir HM sem varð til þess að ég þurfti að gera breytingar æfinga­lega séð á undir­búningi mínum.

Þær greini­lega skiluðu sér en ég get alveg viður­kennt að það var smá stress í mér fyrir þetta undan­úr­slita­sund. Ég á­kvað því bara að taka þetta í þrepum, byrja á því að synda yfir­vegað í undan­rásunum en samt tryggja mig á­fram í undan­úr­slitin svo lagði ég meira á þetta í undan­úr­slitunum sjálfum.“

Bætingin á fyrstu 100 metrunum

Anton synti á 2:09,19 mín­út­um í undan­úr­slitunum og bætti sig um sekúndu frá undan­rásunum.

„Ég vissi að kín­verjinn Hai­y­ang Qing myndi mjög lík­lega byrja sundið rosa­lega hratt, ég var alltaf með það á hreinu að reyna halda mér eins ná­lægt honum og ég gat. Þá ætlaði ég mér að byrja sundið mun grimmar heldur en í undan­rásunum og það er í rauninni þar sem ég næ að vinna mér inn þessa sekúndu í bætingu, á fyrstu hundrað metrunum.

Samt var þetta ein­hvern veginn auð­velt, þetta var annar besti tíminn minn í greininni til þessa, besti tími minn er frá því í fyrra og í minningunni var miklu erfiðara að sund að baki í fyrra saman­borið við núna. Þetta var auð­velt núna, sem er gott merki, og það gefur vonandi góð fyrir­heit fyrir úr­slitin.

Ég er stoltur af sjálfum mér fyrir að hafa treyst á sjálfan mig og harkað í gegnum þetta.“

Lenti á erfiðum stað eftir föðurmissi

Inntur nánar eftir því hversu krefjandi undan­farið ár hefur verið fyrir hann hafði Anton Sveinn þetta að segja:

„And­lega hliðin er alltaf erfiðust þegar að maður er kominn á þetta hæsta afeks­þrep, það er auð­velt að æfa en erfiðara að halda hausnum alltaf góðum. Sem betur fer hef ég sterkt bak­land sem hefur hjálpað mér svo mikið í gegnum á­huga­verðan tíma. Ég er kominn til baka núna, það er á hreinu.“

Ólympíu­leikarnir í París verða fjórðu Ólympíu­leikarnir á ferli Antons Sveins. Þó svo að það sé kannski erfitt að hugsa til þeirra á þessari stundu, sökum komandi úr­slita­sunds á HM, er það alveg greini­legt hvað það er mikill léttir fyrir Anton Svein að hafa tryggt sér sæti á Ólympíu­leikunum.

„Það var rosa­lega til­finninga­þrungin stund þegar að þetta varð ljóst. Árið 2019 byrjaði ég aftur að æfa af fullum krafti og ætlaði að klára Ólympíu­leikana í Tokyo með stæl. Svo kom Co­vid-19 og fram­lengdi það mark­mið um ár, ég missi síðan föður minn rétt fyrir þá leika og lendi á erfiðum stað.

Ég var því ekki alveg sáttur með það í hvaða stefnu ferillinn minn var að taka. Hann hefur þó alltaf ein­hvern veginn haldið á­fram og fyrir mig er það því ó­trú­lega sætt að sjá núna að maður er enn á toppnum. Ég hef lagt alveg ó­trú­lega mikið í þetta og á bak við tjöldin hef ég lagt enda­lausa vinnu í þetta. Ég finn fyrir miklum létti og er ó­trú­lega stoltur af sjálfum mér.“

Allt að vinna, engu að tapa

Seinna í dag er svo komið að úr­slita­sundi hjá Antoni Sveini á HM í 50 metra laug í Japan.

Hver eru mark­miðin fyrir sundið?

„Að kreista allt út úr mér, ég hef engu að tapa og allt að vinna. Ég er búinn að tryggja mig í úr­slitin, búinn að ná ólympíu­lág­markinu og því er ekkert eftir nema að synda hratt og njóta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×