Í færslu á Facebook-síðu Rannsóknarstofu í eldfjallafræði og náttúruvá við Háskóla Íslands segir að það sé að mörgu að hyggja þegar litið er eftir eldgosum. Eitt af því sem fengist sé við sé að taka sýni af rennandi hraunkviku, sýnin séu síðan notuð til að finna út efnasamsetningu, seigju, hitastig og kristöllunarstig. Gögn séu síðan notuð til að herma hraunrennsli svo betur megi bregðast við í framtíðar eldgosum.
„En að nálgast rennandi hraun getur verið vandasamt, einkum vegna þess hve mikill geislahiti stafar af því,“ segir í færslunni.
Elkem kom færandi hendi
Starfsmenn kísilvers Elkem á Grundartanga þekkja það vel að starfa við mikinn hita og því á fyrirtækið sérútbúna varnargalla til slíkra starfa. Elkem lét einn slíkan af hendi rakna til þess að auðvelda jarðvísindamönnum vinnu við söfnun sýna.
„Á myndum sem hér fylgja má glöggt sjá notagildi slíkra búninga. Takk Elkem,“ segir í færslunni.