Danska fyrirtækið Coloplast er að kaupa Kerecis fyrir um 176 milljarða króna. Kerecis verður sjálfstæð rekstrareining innan danska fyrirtækisins en umsvif fyrirtækisins eiga að aukast og störfum að fjölga á Ísafirði. Fyrirtækið hefur unnið að þróun leiða til að nýta þorskroð til að græða sár.
Á örfáum árum varð Kerecis eitt verðmætasta fyrirtæki Íslandssögunnar, tvöfalt verðmætara en Icelandair og Eimskip, með því að nýta fiskafurðir sem er að mestu hent.
Aðspurður um það hvers konar fyrirtæki Kerecis yrði eftir fimm ár, gangi ætlanir hans eftir, sagði Guðmundur að ein af sjálfstæðum vörulínum Coloplast sneri að sáraumbúðir og það væri stærsta sjálfstæða rekstrareining fyrirtækisins. Hún væri öflug víða um heim, nema í Bandaríkjunum, en þær væri Kerecis öflugt, með hátt í þrjú hundruð sölumenn og góðar dreifingarleiðir til sjúkrahúsa.
„Ég hugsa að þetta komi til með að samlagast á næstu árum,“ sagði Guðmundur. Hann sagðist búast við því að vörur Kerecis yrðu mjög mikilvægar fyrir Coloplast, þær yrðu áfram framleiddar á Ísafirði og aðgengilegar í þeim 140 löndum þar sem Coloplast selur vörur sínar.
Viðtal Kristjáns við Guðmund var nokkuð langt og má hlusta á það hér að neðan. Farið var um nokkuð víðan völl.
Guðmundur sagði að erfitt yrði að flytja Kerecis á brott frá Ísafirði. Þar væri líka gott að vera með rekstur þrátt fyrir ýmsar hindranir og nokkur fyrirtæki á svæðinu væru að vaxa mjög og ná árangri.
„Tekjurnar hjá okkur eru um tuttugu milljarðar. Það er fiskeldi hérna fyrir vestan sem hefur vaxið upp úr ekki neinu í um fjörutíu milljarða núna í ár og verður kannski komið í 120 eftir þrjú fjögur ár.“
Hann sagði meðal annars í samtali við Kristján að samgöngur á Vestfjörðum væru erfiðar. Gera þyrfti miklu betur og tengja þyrfti landshlutann við Reykjavíkursvæðið með láglendisveg. Það ætti að kosta um fimmtíu milljarða króna.
„Ég nefni áðan að tekjur Kerecis og laxeldis á Vestfjörðum verða kannski hundrað til hundrað og fimmtíu milljarðar,“ sagði Guðmundur. „Þannig að það kostar einn þriðja af þessu að gera mannsæmandi samgönguleið hingað vestur.“
Guðmundur sagði flugsamgöngur ekki heldur nægilega góðar og ekkert væri verið að skoða hvort hægt væri að gera bætur á því.
„Það er bara galið að það sé ekki verið að skoða þessa hluti í samhengi og gera mannsæmandi fyrir fólk að eiga samgöngur hingað.“ Guðmundur gagnrýndi það að verið væri að verja 250 milljónum í Borgarlínu, sem hann lýsti sem gamalli tækni. Sagði hann að sjálfkeyrandi bílar myndu taka yfir á komandi árum.
Vara Kerecis er keyrð suður en Guðmundur segir hana létta og því eigi fyrirtækið ekki í sömu vandræðum og laxeldið, sem notar stóra og þunga bíla sem festast iðulega á heiðum og hálsum Vestfjarða.