Í tilkynningu frá SFS segir að niðurstaðan sé skýr, ákvörðun ráðherra hafi farið í bága við lög og ekki verið reist á nægjanlega traustum lagagrundvelli.
Í álitinu segir meðal annars að afar hæpið verði að teljast að ákvæði 4. gr laga um hvalveiðar færi ráðherra heimild til að setja reglugerð sem stöðvar í reynd veiðarnar fyrirvaralaust eða kemur beinlínis í veg fyrir að veiðirétthafar geti nýtt réttindi sín. Ákvörðun ráðherra hafi því ekki verið reist á viðhlítandi lagaheimildum og stenst því ekki stjórnarskrá, að mati lögmannnanna.
Þá standist það vart kröfur um stjórnskipulegt meðalhóf að banna fyrirvaralaust veiðarnar með því að gefa út reglugerð, án fyrirvara eða aðlögunartíma. Sömuleiðis telja lögfræðingarnir að sú aðferð að setja reglugerð um bannið í stað þess að fylgja málsmeðferð stjórnsýslulaga sé tæplega í samræmi við svonefnda stjórnarfarsreglu en hún felur í sér að stjórnvaldi er bannað að misbeita valdi við val á leiðum til úrlausnar á máli.
Ennfremur er bent á að ekki hafi verið óskað eftir sjónarmiðum Hvals hf., meðal annars um álit þeirra sérfræðinga sem voru kallaðir fyrir fagráð um velferð dýra. Þannig hafi ekki verið gætt að andmælarétti sem mælt er fyrir um í stjórnsýslulögum.
Því hafi reglugerð ráðherra, sem byggði á niðurstöðu fagráðsins, ekki verið reist á nægilega traustum grundvelli. Að lokum benda lögfræðingar LEX á að það að „kollvarpa stjórnsýsluframkvæmd í einu vetfangi“, eins og þeir orða það, fari í bága við viðmið sem lögð hafi verið til grundvallar í stjórnsýslurétti.
Sjá má minnisblað LEX í heild sinni að neðan.