Skoðun

Lærlingurinn í Íslandsbanka

Ingólfur Sverrisson skrifar

Fátt er göfugra en þegar fólk viðurkennir mistök sín og iðrast af hjartans einlægni. Nú hefur bankastjóri Íslandsbanka gengið þessa píslargöngu síðustu daga og viðurkennt að hafa gert mistök við sölu á eignarhlut ríkisins í bankanum og jafnvel brotið lög í því ferli. Að vísu lá þessi viðurkenning ekki fyrir fyrr en búið var að rannsaka söluna af óvilhöllum aðila og sýna fram á spillta stjórnsýslu á hæsta stigi. Þá fyrst voru mistök viðurkennd og lögð þung áhersla á að úr þessu mætti bæta og jafnvel læra einhver ósköp. En til þess að koma sjálfri sér á þurrt land aftur varð bankastjórinn að greiða á annan milljarð króna úr bankanum „sínum” til Fjármálaeftirlits Seðlabankans.

Við viðskiptavinir bankans erum hins vegar vanir því að greiða sjálfir til sama banka ef okkur verður á að fara yfir á reikningi, gleymum að greiða á réttum tíma eða eitthvað enn alvarlegra. Það stafar eflaust af því að viðskiptavinir bankans eru ekki skilgreindir nemendur hans eins og raunin er með bankastjórann. Hann þarf aðeins að sína iðrun, borga fúlgur fjár úr sjóðum bankans og segjast hafa lært einhver lifandis ósköp í viðskiptafræðum og jafnvel siðfræði. Slík játning og yfirbót er greinilega talin jafngilda syndaaflausn og því engin ástæða til afsagnar enda þótt það þyki sjálfsagt í öllum löndum sem við miðum okkur við.

Engu að síður eru einhverjir sem telja eðlilegt að sá eða sú sem gegnir bankastjórastöðu kunni skil á helstu leikreglum á því sviði og fari jafnvel eftir þeim. Að gera afdrifarík mistök í svo hárri stöðu ætti að hafa afleiðingar enda oft vitnað til þess að greiða þurfi slíkum stjórnendum mjög góð laun vegna mikilla krafna sem til þeirra eru gerðar. Í þessu tilviki er greinilega nægjanlegt að viðkomandi sýni iðrun og vilja til að læra einhverja lexíu af mistökunum. Sé sem sagt góður nemandi á bankastjóralaunum.

Margir hafa spurt um hver beri þá ábyrgð í máli eins og því sem hér er gert að umræðuefni. Eftir því sem best verður séð er það enn einu sinni hr. Enginn. Þrátt fyrir að hann sé vel þekktur hér á landi og komið víða við sögu hefur hann ekki enn fengið kennitölu. Hver veit nema hr. Enginn verði kominn með hana innan tíðar. Annað eins hefur nú gerst í hinu marglofaða landi tækifæranna þar sem ævintýrin gerast.

Höfundur er eftirlaunaþegi.




Skoðun

Sjá meira


×