Nú skömmu fyrir hádegi fékk fjölskylda Zak gleðitíðindi að sögn Hildar Blöndals Sveinsdóttur en tengdadóttir hennar er systir Zak.
„Við vorum að fá þær stórkostlegu fréttir að hann var að komast í gegnum vegabréfaskoðun á Spáni og hann er leið til Georgíu,“ segir Hildur með grátstafinn í kverkunum. „Þetta er búið að vera svo mikill tilfinningarússíbani,“ segir hún og bætir við að þetta hafi verið bestu mögulegu fréttir sem þau hafi getað fengið.
Greint hefur verið frá máli Zak undanfarna daga. Honum var neitað um alþjóðlega vernd hér á landi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og aftur eftir efnislega meðferð. Hann kom til Íslands eftir að hafa verið á flótta undan herkvaðningu í heimalandi sínu, Rússlandi.
Eftir að Útlendingastofnun hafnaði Zak um vernd vildi hann komast til Georgíu þar sem kærasta hans er nú búsett en fékk ekki vegabréf sitt afhent af íslenskum yfirvöldum. Í gær var Zak sendur úr landi í lögreglufylgd til Spánar og óttaðist fjölskylda hans hér á landi það versta við komuna til Spánar, að hann yrði sendur til Rússlands.
Hildur segir Zak hafa verið gríðarlega stressaðan í morgun enda hafi hann ekki vitað hvað biði sín. Þungu fargi sé nú létt af fjölskyldunni, þau muni þó ekki fagna endanlega fyrr en þau fá mynd af Zak á flugvellinum í Georgíu ásamt kærustu sinni.