Verðbólga og fátækt í landinu var meðal þess sem Katrín ræddi. „Verðbólguástand bitnar alltaf verst á þeim sem síst skyldi, og þess vegna skiptir öllu máli að kveða verðbólguna niður.“
Hún sagði að eitt af því sem ríkisstjórnin og alþingi hafi gert væri að takmarka fyrirhugaðar launahækkanir æðstu ráðamanna. Hún sagði teikn vera á lofti um að draga muni úr verðbólgu á næstu mánuðum. Samræmdar aðgerðir ríkisstjórnar og Seðlabankans muni hafa áhrif.
Í ávarpinu velti Katrín að auki upp spurningum sem tengjast hraðri þróun gervigreindar og afurða hennar. Hvort skáldverk, fræðirit eða ræður skrifaðar af tölvu geti komið í stað mennskra verka.
„Liggur gildi þeirra ekki í því að vera tjáning fólks, ófullkomin en um leið mannleg og lifandi?,“ spurði Katrín. „Höfum við í raun áhuga á texta sem manneskja hefur ekki samið eða myndmálaða vél, sama hversu tæknilega fullkomið slíkt verk kynni að vera?“
Katrín kom einnig inn á jafnréttismál hún segir baráttunni ekki lokið þótt Ísland sé í fararbroddi þegar jafnrétti kynjanna sé mælt á alþjóðamælikvarða. „Við hættum ekki fyrr en fullu launajafnrétti er náð, kynbundið ofbeldi heyrir sögunni til, fyrr en hinni ólaunuðu vinnu verði jafnt skipt.“