Leiknir Reykjavík gerði 2-2 jafntefli við Grindavík í Breiðholtinu í dag. Gestirnir komust 2-0 yfir þökk sé mörkum frá Marko Vardic og Edi Horvat. Daníel Finns Matthíasson og Róbert Hauksson jöfnuðu hins vegar metin fyrir heimamenn.
Elvar Geir Magnússon, ritstjóri Fótbolti.net og Leiknismaður mikill, birti mynd á meðan leik stóð þar sem Sævar Atli sést í gulu vesti á sínum heimaslóðum. Sævar Atli, sem var valinn í fyrsta landsliðshóp Åge Hareide er uppalinn Leiknismaður og hefur eðlilega viljað sjá sína menn spila.
Þó staðan inni á vellinum sé ekki góð sem stendur þá er gæslan framúrskarandi pic.twitter.com/PiLXeWo29A
— Elvar Geir Magnússon (@elvargeir) June 10, 2023
Gamlir Leiknismenn eru að venju duglegir til að hjálpa til en Hilmar Árni Halldórsson, leikmaður Stjörnunnar, hefur einnig sést í gæslunni hjá Leikni þegar liðin voru ekki í sömu deild.
Önnur úrslit í Lengjudeildinni voru þau að Þróttur Reykjavík vann 3-0 sigur á Þór frá Akureyri á meðan Afturelding vann 3-1 sigur á Vestra.