Formenn samninganefnda BSRB og sveitarfélaganna, með einum fulltrúa hvor með sér, komu þriðja daginn í röð til fundar hjá sáttasemjara klukkan tíu í morgun. Verkfallsaðgerðir starfsmanna BSRB eru stigmagnandi. Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB segir að allsherjarverkfall á mánudag muni ná til starfsmanna hjá 29 sveitarfélögum hafi samningar ekki náðst.

„Þetta eru í kring um tvö þúsund og fimm hundruð félagar sem leggja niður störf. Þetta er þá í leikskólum, ótímabundið í sundlaugum og íþróttamannvirkjum. Þetta er líka á bæjarskrifstofunum, áhaldahúsum. Þetta eru almenningssamgöngur á Akureyri og vinnuskólar,“ segir Sonja Ýr.
Inga Rún Ólafsdóttir formaður samninganefndar Sambands sveitarfélaga segir helst tekist á um kröfu BSRB um að þeirra félagar fengju sömu hækkun og starfsfólk á almennum vinnumarkaði fékk í janúar. Samningstími BSRB væri hins vegar annar og hafi náð út marsmánuð á þessu ári en samningar Starfsgreinasambandsins runnið út í september á síðasta ári. Þetta væri erfiðasta krafan.

„Enda um samning að ræða sem er að fullu efndur og var samið um til loka mars. Þannig að það er mjög þung krafa.“
Myndir þú kannski segja að það væri þyngsta krafan í þessu?
„Já, ég hugsa það,“ segir Inga Rún.
Sonja Ýr segir að þá verði einfaldlega að horfa til framtíðar.
„Það er þannig að okkar fólk er gríðarlega ósátt að vera inni á vinnustöðum þar sem einhver við hliðina á þeim, í nákvæmlega sama starfi, fékk launahækkun í janúar. En þau eiga bara að fá hana í apríl. Það er bara eitthvað sem við verðum að leysa til að búa til sátt inni á vinnustöðunum.“
Þannig að það verði þá að meta það í hækkuninni sem kemur í apríl að ykkar mati afturvirkt?
„Það er bara mjög einfalt að leysa það til framtíðar til dæmis með eingreiðslu eða einhverjum öðrum hætti,“ segir Sonja Ýr.
Báðir samningsaðilar segjast vilja forða því að magna deiluna með allsherjarverkfalli á mánudag. Inga Rún segir sveitarfélögin bjóða BSRB algerlega sambærilega samninga og aðrir hefðu fengið. Raunar betri samninga en BSRB hefði samiðum um við Reykjavíkurborg og ríkið.
„Það er náttúrlega mjög gott samtal í gangi en þetta hreyfist lítið. Við erum búin að leggja fram tilboð eftir tilboð og mikið af hugmyndum inn áborðið; tillögum að lausn. En það kemur lítið ámóti,“ segir Inga Rún Ólafsdóttir.
Forystufólk samninganefndanna fundaði klukkustundum saman hjá sáttasemjara á miðvikudag, fimmtudag og frá klukkan tíu í morgun hjá sáttasemjara. Þeim fundi lauk upp úr klukkan sex og er næsti fundur ekki boðaður fyrr en klukkan 13:00 á sunnudag, þegar um sólarhringur er í að allsherjarverkfall taki gildi.