Sport

Snæfríður í metaham á Möltu

Sindri Sverrisson skrifar
Snæfríður Sól Jórunnardóttir með gullverðlaunin eftir að hafa unnið og sett Íslandsmet í 400 metra skriðsundi á Möltu í dag.
Snæfríður Sól Jórunnardóttir með gullverðlaunin eftir að hafa unnið og sett Íslandsmet í 400 metra skriðsundi á Möltu í dag. SSÍ

Sundkonan Snæfríður Sól Jórunnardóttir heldur áfram að gera það gott í lauginni á Möltu, á Smáþjóðaleikunum, en hún vann til gullverðlauna á nýju Íslandsmeti í 400 metra skriðsundi í dag.

Snæfríður bætti í dag ellefu ára gamalt Íslandsmet sem Sigrún Brá Sverrisdóttir átti.  Mettími Sigrúnar var 4:20,42 mínútur en Snæfríður bætti það um fjórðung úr sekúndu með því að synda á 4:20,16 mínútum. 

Þessi tími dugði Snæfríði jafnframt til að vinna öruggan sigur í greinnni en hún náði strax forystunni og endaði fjórum og hálfri sekúndu á undan næsta keppanda, Arianna Valloni frá San Marínó. Freyja Birkisdóttir varð í 5. sæti á 4:34,34 mínútum.

Snæfríður hefur þar með bætt Íslandsmet þrisvar sinnum til þessa á Möltu því í gær, á fyrsta keppnisdegi, tvíbætti hún metið sitt í 100 metra skriðsundi. Fyrst þegar hún vann silfurverðlaun í greininni og svo þegar boðsundssveit Íslands vann 4x100 metra skriðsundið.

Rétt áður en Snæfríður stakk sér til sunds í dag náði hin 15 ára gamla Ylfa Kristmannsdóttir að vinna til silfurverðlauna í 100 metra baksundi, á 1:04,80 mínútu. Hún var 44/100 úr sekúndu á eftir sigurvegaranum Giulia Viacava frá Mónakó.

Þegar þetta er skrifað er sex greinum ólokið í sundinu í dag, á öðrum keppnisdegi af fjórum, en hægt er að sjá öll úrslit með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×