Fótbolti

Haaland valinn besti leikmaður tímabilsins á Englandi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Erling Braut Haaland hefur raðað inn mörkum fyrir Manchester City.
Erling Braut Haaland hefur raðað inn mörkum fyrir Manchester City. Clive Rose/Getty Images

Norska markamaskínan Erling Braut Haaland hefur verið valinn besti leikmaður tímabilsins í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Haaland er að klára sitt fyrsta tímabil í ensku úrvalsdeildinni og hefur Norðmaðurinn heldur betur komið eins og stormsveipur inn í deildina.

Framherjinn gerði sér lítið fyrir og bætti markamet deildarinnar, en hann hefur skorað 36 mörk í 35 deildarleikjum fyrir Menchester City. Lokaumferð deildarinnar er enn eftir og því gæti Haaland enn bætt í metið þegar Englandsmeistararnir sækja Brentford heim á morgun.

Andrew Cole og Alan Shearer áttu markametið í deildinni, en þeir skoruðu báðir 34 mörk á einu tímabili þegar leiknir voru 42 leikir á tímabili í stað 38 eins og deildin er í dag.

Alls hefur Haaland skorað 52 mörk fyrir Manchester City í öllum keppnum á tímabilinu, en aðeins Dixie Dean hefur skorað meira fyrir lið í efstu deild á Englandi. Það gerði hann með Everton tímabilið 1927-1928 þegar hann skoraði 63 mörk.

Norðmaðurinn er fjórði leikmaður Manchester City til að hreppa verðlaunin, en þetta er einnig fjórða tímabilið í röð sem leikmaður liðsins er valinn bestur í ensku úrvalsdeildinni. Vincent Kompany var fyrsti leikmaður liðsins til að vinna verðlaunin tímabilið 2011-2012, Kevin De Bruyne vann þau svo tvisvar tímabilin 2019-202 og 2021-2022 og í millitíðinni fékk Ruben Dias verðlaunin tímabilið 2020-2021.

Með Manchester City hefur Haaland nú þegar orðið enskur meistari og liðið er komið í úrslitaleiki bæði í FA-bikarnum og Meistaradeild Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×