Sport

Hægt að sjá Katrínu Tönju reyna að komast inn á sína tíundu heimsleika

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Tanja Davíðsdóttir getur komist í hóp fárra sem hafa keppt tíu sinnum í einstaklingskeppni heimsleikanna.
Katrín Tanja Davíðsdóttir getur komist í hóp fárra sem hafa keppt tíu sinnum í einstaklingskeppni heimsleikanna. @katrintanja

Katrín Tanja Davíðsdóttir er meðal keppanda á undanúrslitamóti Vesturhluta Norður-Ameríku sem hófst með liðakeppni í gær en í dag byrjar einstaklingskeppnin.

Katrín Tanja er ein af sextíu konum sem keppa um tíu laus sæti á heimsleikana í haust. Það eru aftur á móti bara níu sæti í boði hjá körlunum á þessi svæði.

Keppnin fer fram í Pasadena Convention Center í Pasadena í útjaðri Los Angeles borgar í Kaliforníu fylki í Bandaríkjunum.

Það kemur ekkert á óvart í þessari keppni því keppendurnir hafa vitað lengi hverjar greinarnar eru og gátu líka austurhlutann reyna sig við þær í undanúrslitamóti sínu um síðustu helgi.

Í fjórðungsúrslitunum þá endaði Katrín með tuttugasta besta árangurinn. Hún þarf því að hækka sig um tíu sæti ætli hún að vera með á heimsleikunum í ár.

Arielle Loewen var með besta árangurinn í fjórðungsúrslitunum en næstar á eftir henni voru þær Alex Gazan og Rebecca Fuselier.

Katrínu tókst ekki að tryggja sér inn á heimsleikana í fyrra og hungrið er því örugglega mikið hjá þessari miklu keppniskonu að láta það ekki gerast aftur.

Hún hefur komist á níu heimsleika á ferlinum þar af átta í röð á árunum 2015 til 2021. Hún varð heimsmeistari árin 2015 og 2016 og þar sem að meistari síðustu sex ára, Tia-Clair Tommey er í barnsburðarleyfi, þá er Katrín síðasta konan til að vinna titilinn af þeim sem taka þátt í ár.

CrossFit samtökin munu sýna beint frá undanúrslitamótinu á Youtube síðu sinni og það verður því hægt að fylgjast með Katrínu Tönju reyna að komast inn á tíundu heimsleikana sína. Hér fyrir neðan má sjá útsendinguna frá degi eitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×