Í tilkynningunni, sem er afar harðorð, segir að áform Bjarna séu til þess fallin að kasta rýrð á orðspor íslenska ríkisins og trúverðugleika á fjármálamarkaði, byggi á ófullnægjandi greiningu á lagalegum og fjárhagslegum þáttum og fela í sér tilraun til að sniðganga fjárhagslegar skuldbindingar ríkisins.
„Fyrirhuguð löggjöf fæli í sér eignarnám, væri andstæð stjórnarskrá og til þess fallin að baka íslenska ríkinu skaðabótaskyldu sem kynni að hafa í för með sér veruleg viðbótarfjárútlát af hálfu ríkissjóðs í formi dráttarvaxta og kostnaðar.“
Fram kemur að athugasemdir sem hópurinn hefur við þetta að athuga hafi verið sett fram í samráðsgátt stjórnvalda vegna áformaskjals ráðherra.
Í tilkynningunni fylgir athugasemd lífeyrissjóðanna tuttugu, sem LOGOS lögmannsþjónusta lagði fyrir stundu fram fyrir hönd þeirra í samráðsgáttina, auk punktayfirlits yfir það helsta sem þar kemur fram.
Í vikunni efndi Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar til sérstakrar umræðu um fyrirætlan Bjarna að slíta sjóðnum með lagasetningu. Hún vakti athygli á því að með þessu væri verið að ganga á eignarrétt lífeyrissjóðanna og skilja lífeyrissjóðina eftir með um 150 milljarða tap. Til stæði að láta lífeyrissjóðina taka á sig þungt högg vegna klúðurs í efnahagsstjórn.
Bjarni taldi gagnrýnina ómaklega og sagði meðal annars: „Mér finnst dálítið dapurlegt að hér í þessum sal skuli ríkissjóður ekki eiga fleiri vini. Ég verð að segja alveg eins og er að það slær mig undarlega þegar þingmenn standa hér upp og tala um það að hugmyndir séu brot á stjórnarskrá. Bara hugmyndin um að gera eitthvað í málinu, það er brot á stjórnarskrá sagði háttvirtur þingmaður.“
Lífeyrissjóðirnir sem um ræðir eru, eins og segir í upphafi áformsskjals:
„Almenni lífeyrissjóðurinn, Birta lífeyrissjóður, Brú lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga, Eftirlaunasjóður F.Í.A., Festa lífeyrissjóður, Frjálsi lífeyrissjóðurinn, Gildi lífeyrissjóður, Íslenski lífeyrissjóðurinn, Lífeyrisauki, séreignasjóður, Lífeyrissjóður bankamanna, Lífeyrissjóður Rangæinga, Lífeyrissjóður starfsmanna Búnaðarbanka Íslands hf., Lífeyrissjóður starfsmanna Reykjavíkurborgar, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóður Tannlæknafélags Íslands, Lífsverk lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður verslunarmanna, Lífeyrissjóður Vestmannaeyja, Stapi lífeyrissjóður og Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda (lífeyrissjóðirnir) hafa óskað þess að LOGOS komi á framfæri fyrir sína hönd athugasemdum við áform fjármála- og efnahagsráðherra (ráðherra) um lagasetningu til slita og uppgjörs á ÍL-sjóði, sbr. mál nr. 78/2023, sem birt var í samráðsgátt stjórnvalda þann 31. mars sl.“