Handbolti

Fimmtán íslensk mörk dugðu ekki til

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Janus Daði Smárason skoraði sex mörk fyrir Kolstad í dag.
Janus Daði Smárason skoraði sex mörk fyrir Kolstad í dag. Kosltad

Janus Daði Smárason, Sigvaldi Björn Guðjónsson og félagar þeirra í norska deildarmeistaraliðinu Kolstad máttu þola súrt eins marks tap er liðið heimsótti Runar í öðrum leik liðanna í undanúrslitum um Noregsmeistaratitilinn í dag, 37-36.

Kolstad vann fyrsta leik liðanna nokkuð örugglega, 28-22, og bjuggust líklega flestir við því að það sama yrði uppi á teningnum í dag.

Það var þó nokkuð ljóst frá upphafi leiks að heimamenn í Runar ætluðu ekki að gefa norska ofurliðinu tommu eftir og heimamenn náðu fljótt fjögurra marka forskoti. Mest náði Runar sex marka forystu í fyrri hálfleik, en staðan var 21-17, Runar í vil, þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja.

Heimamenn byrjuðu síðari hálfleikinn svo af sama krafti og náðu mest upp sjö marka forskoti. Lengst af leit út fyrir að sigur þeirra yrði nokkuð öruggur, en Íslendingaliðið gaf allt í botn á lokamínútunum. Í stöðunni 35-29 settu liðsmenn Kolstad í fluggírinn, skoruði sex af næstu sjö mörku leiksins og minnkuðu muninn niður í eitt mark. Nær komust þeir þó ekki og niðurstaðan varð einmitt eins marks sigur Runar, 37-36.

Sigvaldi og Janus voru markahæstu menn Kolstad í dag eins og svo oft áður. Sigvaldi skoraði níu mörk fyrir liðið og Janus sex, en Janus bætti einnig við níu stoðsendingum fyrir liðsfélaga sína.

Eftir þessi úrslit er staðan í undanúrslitaeinvíginu nú jöfn, 1-1, en vinna þarf þrjá leiki til að tryggja sér sæti í úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×