Þessu greinir Guðmundur frá í ávarpi til fylgjenda sinna á samfélagsmiðlum. Horfa má á myndbandið neðst í fréttinni.
Eins og Vísir hefur greint frá fékk Guðmundur sýkingu í olnbogann vegna sterameðferðar sem hann hefur verið í sem gert hefur ónæmiskerfi hans óvirkt. Sterameðferðin er gríðarlega sterk og til þess fólgin að hafa áhrif á höfnun líkama hans á ágræddum handleggjunum.
Olnbogi Guðmundar var orðinn þrefaldur af stærð og fór hann í aðgerð á laugardagskvöld þar sem tappað var af olnboganum eins og hann lýsir því, til þess að sterarnir komist sína leið í handleggnum.
Fékk hita í gærkvöldi
„Á laugardag fór ég í aðgerð þar sem þeir opnuðu olnbogann á mér til þess að hreinsa sýkinguna sem var í olnboganum og við höfðum ekki náð í með sýklalyfjum,“ segir Guðmundur Felix.
Í gærkvöldi hafi Guðmundur verið með hita og sýkingin í handleggnum haldið sér í honum þrátt fyrir sýklalyfin.
„Þannig að í morgun var ákveðið að ég færi í aðra aðgerð. Við skárum hærra í handlegginn þannig hann er opinn alla leið frá öxl og niður að hönd.“
Ekki eins sársaukafullt
Guðmundur segir handlegginn hafa verið þrifinn og þrifinn og hann sé enn á sýklalyfjum.
„Nú þurfum við bara að bíða og sjá. Ég er ekki með hita. Mér líður ágætlega. Handleggurinn er enn bólginn en þetta er ekki eins sársaukafullt.“
Á næstu dögum muni það skýrast hvernig þetta fer. Hann segist fylgjast vel með öllum skilaboðum frá fólki á samfélagsmiðlum en sé ekki í standi til þess að svara þeim sjálfum.
„Ég get rétt notað fingurna, en takk kærlega fyrir stuðninginn. Ég læt ykkur vita hvernig þetta fer.“