„Ég ákvað að taka leynigest upp á svið alveg óundirbúið þannig að hvorki listafólkið né leynigesturinn vissi af þessu. Þetta var því ákveðin áhætta en ég tók sénsinn, kallaði Hallgrím Ólafsson upp á svið og lét hann syngja eitt lag með mér. Honum var auðvitað frekar brugðið en hélt andlitinu og söng eitt lag með okkur,“ segir Jón.
Blaðamaður tók púlsinn á Halla, sem segir að þetta hafi verið óvænt ánægja.
„Ég var svo leynilegur leynigestur að ég vissi ekki einu sinni af því,“ segir Halli hlæjandi og bætir við: „Ég ætlaði bara að eiga huggulegt tónleikakvöld með konunni minni sem við gerum mjög sjaldan, þar sem ég er vanalega uppi á sviði.“

Hann segir þó kvöldið hafa verið stórkostlegt og skemmtilegt.
„Það bjargaði mér að Jón valdi lag sem ég þekki vel og hef sungið. Það heitir Meiri gauragangur og er úr Gauragangs sýningunni. Ég hef oft verið að hrósa þessu lagi við hann í gegnum tíðina þannig að hann vissi alveg hvað hann var að gera.
Ég er bara feginn að hann hafi ekki beðið mig um þetta fyrr, þá hefði ég verið svo stressaður allan daginn.
Kvöldið var einfaldlega stórkostlegt, það var svo gaman að horfa á Jón og fagna þessu 60 ára afmæli með honum. Maður var bara klökkur í lokinn, þetta var fallegt og maður áttar sig líka á því hvað hann er búinn að gera ótrúlega mikið af mismunandi músík með alls konar fólki,“ segir Halli að lokum.

Það er nóg um að vera hjá Jóni um þessar mundir en hann verður einnig með afmælistónleika á Græna hattinum á Akureyri 29. apríl næstkomandi. Þar verður hann ásamt hljómsveit og tónlistarmaðurinn Daníel Ágúst verður sérstakur gestur.
