Handbolti

Hafdís staðfestir brottför frá Fram

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hafdís Renötudóttir ver ekki mark Fram á næsta tímabili.
Hafdís Renötudóttir ver ekki mark Fram á næsta tímabili. vísir/hulda margrét

Hafdís Renötudóttir, landsliðsmarkvörður í handbolta, er á förum frá Fram. Hún hefur verið orðuð við Val.

Í gær greindi handbolti.is frá því að Hafdís væri á leið til Vals og hefði náð samkomulagi við félagið.

Í skilaboðum til Vísis í dag staðfesti Hafdís að hún myndi yfirgefa Fram fyrir næsta tímabil og gerði það með miklum trega. Hún sagði að framhaldið hjá sér væri óljóst en hún myndi halda alltaf áfram í handbolta.

Hafdís gekk aftur til liðs við Fram 2019 eftir dvöl hjá SønderjyskE í Danmörku og Sola í Noregi. Þá lék hún með Stjörnunni áður en hún hélt utan.

Miklar breytingar verða hjá Fram fyrir næsta tímabil. Einar Jónsson tekur við liðinu af Stefáni Arnarsyni sem hættir eftir níu ára starf. Auk Hafdísar er ljóst að Perla Ruth Albertsdóttir og Kristrún Steinþórsdóttir yfirgefa félagið en þær hafa samið við Selfoss.

Fram hefur samið við unglingalandsliðsmarkvörðinn Ethel Gyðu Bjarnasen en hún kemur frá HK. Markverðirnir Ingunn María Brynjarsdóttir og Soffía Steingrímsdóttir eru einnig samningsbundnar Fram. Sú síðarnefnda lék sem lánsmaður með Gróttu seinni hluta tímabilsins.

Fram lenti í 4. sæti Olís-deildarinnar í vetur og féll úr leik fyrir Haukum, 2-0, í sex liða úrslitum úrslitakeppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×