Erlent

Leyni­þjónustan gómaði barn

Máni Snær Þorláksson skrifar
Fulltrúar leyniþjónustunnar höfðu hendur í hári barnsins og skiluðu því aftur til foreldra sinna.
Fulltrúar leyniþjónustunnar höfðu hendur í hári barnsins og skiluðu því aftur til foreldra sinna. AP/Nancy Benac

Barn náði að troða sér í gegnum girðinguna hjá Hvíta húsinu, bústað forseta Bandaríkjanna, í gær. Viðvörunarkerfi leyniþjónustu Bandaríkjanna fór við það í gang. Fulltrúum hennar tókst að hafa uppi á barninu og koma því aftur til foreldra sinna.

Anthony Guglielmi, talsmaður leyniþjónustunnar, segir í yfirlýsingu að fulltrúar leyniþjónustunnar hafi orðið varir við barnið er það kom inn á lóðina. „Barninu var fljótlega komið aftur til foreldra sinna,“ segir Guglielmi.

Samkvæmt AP gæti verið um að ræða fyrsta skiptið sem einhver kemst óboðinn inn á lóðina síðan girðingin var hækkuð og bilið milli rimlanna minnkað. Var það gert sökum þess hve algengt það var að fólk komst yfir eða í gegnum girðinguna. Í dag er girðingin tæpir fjórir metrar á hæð og um 12,7 sentímetrar eru á milli rimlanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×