Umræðan

Fyrirtækjakaup sem ekki þarf að tilkynna geta leitt til sekta

Vilhjálmur Herrera Þórisson skrifar

Um miðjan mars síðastliðinn féll dómur Evrópudómstólsins í svokölluðu Towercast máli. Þar viðurkenndi dómurinn rétt samkeppnisyfirvalda og dómstóla til að véfengja samruna og yfirtökur markaðsráðandi fyrirtækja á grundvelli reglna um misnotkun á markaðsráðandi stöðu, jafnvel þó ekki sé um tilkynningarskylda samruna að ræða á grundvelli samkeppnisreglna ESB réttar eða aðildarríkja. 

Í málinu hafði tiltekið markaðsráðandi fjarskiptafyrirtæki í Frakklandi keypt allt hlutafé í smærri keppinaut. Samruninn var ekki tilkynningarskyldur á grundvelli þarlendra samkeppnisreglna. Towercast, keppinautur samrunaaðila, kvartaði undan viðskiptunum til samkeppnisyfirvalda þar sem því var haldið fram að samruninn styrkti markaðsráðandi stöðu keppinautarins. Þegar samkeppnisyfirvöld höfnuðu að taka málið til meðferðar ákvað félagið að fara dómstólaleiðina með þeim afleiðingum að Evrópudómstóllinn staðfesti að í kaupum á minni keppinaut, jafnvel undir veltumörkum samrunareglna, geti falist misnotkun á markaðsráðandi stöðu. 

Með hliðsjón af framangreindu er Samkeppniseftirlitinu hér á landi heimilt að taka til skoðunar kaup markaðsráðandi fyrirtækja á smærri fyrirtækjum á grundvelli 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Á það sama við ef keyptur er hluti úr fyrirtækjum eða eignir keppinauta.

Þegar samkeppnisyfirvöld höfnuðu að taka málið til meðferðar ákvað félagið að fara dómstólaleiðina með þeim afleiðingum að Evrópudómstóllinn staðfesti að í kaupum á minni keppinaut, jafnvel undir veltumörkum samrunareglna, geti falist misnotkun á markaðsráðandi stöðu.

Þessi staða getur skapað mikla óvissu hjá markaðsráðandi fyrirtækjum til lengri tíma. Er þannig ekki hægt að útiloka að Samkeppniseftirlitið taki slík viðskipti markaðsráðandi fyrirtækis til skoðunar eftir að búið er að uppfylla fyrirvara og ganga frá þeim. Getur Samkeppniseftirlitið þannig tekið ákvörðun um sekt, háttsemisskilyrði og jafnvel ógildingu viðskiptanna. Þá kunna aðilar sem verða fyrir tjóni af hinni skaðlegu háttsemi að eiga rétt á skaðabótum úr hendi hins markaðsráðandi fyrirtækis.

En hvað er hægt að gera til að koma í veg fyrir þá óvissu sem þessu fylgir? Mikilvægt er að huga að þessum áhættuþætti strax á byrjunarstigi slíkra viðskipta. Þá er, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, hægt að greina Samkeppniseftirlitinu frá því skriflega að samruni sem ekki er tilkynningarskyldur hafi átt sér stað og gefst þá Samkeppniseftirlitinu tækifæri til að kalla eftir formlegri samrunatilkynningu.

Það er aðeins tímaspursmál hvenær slík mál fara að skjóta upp kollinum víðar í Evrópu, þar með talið á Íslandi.

Á sama tíma gefst keppinautum færi á að véfengja slík viðskipti fyrir samkeppnisyfirvöldum eða dómstólum, telji þau að viðskiptin hafi í för með sér skaðleg áhrif á samkeppni. Fyrir keppinauta er nauðsynlegt að huga strax að því, um leið og félagið verður áskynja um slík viðskipti, hvort félagið hafi orðið fyrir tjóni vegna þeirra eða hvort slíkt tjón kunni að koma til.

Belgísk samkeppnisyfirvöld hafa nú þegar hafið rannsókn á kaupum markaðsráðandi fyrirtækis, Proximus, á smærri keppinaut þar í landi. Voru viðskiptin ekki tilkynningarskyld þar sem veltumörkum var ekki náð. Það er aðeins tímaspursmál hvenær slík mál fara að skjóta upp kollinum víðar í Evrópu, þar með talið á Íslandi.

Höfundur er lögmaður og verkefnastjóri hjá LOGOS lögmannsþjónustu og sérhæfir sig m.a. í samkeppnisrétti.




Umræðan

Sjá meira


×