Fótbolti

Auðveld ákvörðun að taka aftur við Chelsea: „Þetta er mitt félag“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Frank Lampard mun stýra Chelsea út tímabilið.
Frank Lampard mun stýra Chelsea út tímabilið. Darren Walsh/Chelsea FC via Getty Images

Frank Lampard var kynntur til sögunnar sem bráðabirgðaknattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarfélagsins Chelsea í dag. Hann segir að ákvörðunin að snúa aftur til félagsins hafi verið auðveld.

„Þetta var nokkuð auðveld ákvörðun fyrir mig. Þetta er mitt félag, ég spilaði lengi hérna og hef þjálfað hér áður. Þannig að ég ber miklar tilfinningar til félagsins,“ sagði Lampard á blaðamannafundi í dag.

„Að koma aftur þegar félagið biður þig um að koma og taka að þér þetta hlutverk þá skiptir það miklu máli. Og það skiptir líka miklu máli að ég hafi verið beðinn um að koma á þessum tímapunkti til að hjálpa til þegar liðinu gengur ekki nógu vel.“

„Þannig ég er ótrúlega ánægður með að fá þetta tækifæri og virkilega þakklátur. Ég hef trú á sjálfum mér og veit vel hvað þetta lið getur. Ég hef auðvitað unnið með mörgum þeirra áður, en ég þekki líka æfingasvæðið, völlinn, stuðningsmennina og hvað það er sem stuðningsmennirnir vilja.“

„Ég mun gera allt sem ég get á næstu vikum til að gefa stuðningsmönnunum það sem þeir vilja,“ sagði Lampard.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×