Enski boltinn

Rodgers lætur af störfum hjá Leicester

Smári Jökull Jónsson skrifar
Brendan Rodgers er ekki lengur þjálfari Leicester City.
Brendan Rodgers er ekki lengur þjálfari Leicester City. Vísir/Getty

Brendan Rodgers er ekki lengur við stjórnvölinn hjá Leicester City í ensku úrvalsdeildinni en félagið og hann hafa komist að samkomulagi um að hann láti af störfum.

Í yfirlýsingu Leicester segir að náðst hafi samkomulag um að Rodgers láti af störfum. Liðð beið lægri hlut gegn Crystal Palace í gær þar sem sigurmark Palace kom í uppbótartíma. Leicester er í næst neðsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 25 stig, einu stigi minna en Everton og Leeds sem eru í sætunum fyrir ofan.

„Brendan yfirgefur King Power Stadium sem sá þjálfari sem hefur náð eina bestum árangri í sögu félagsins eftir að hafa leitt liðið til sigurs í FA bikarnum árið 2021, unnið samfélagsskjöldinn það sama ár, náð tveimur af þremur bestu tímabilum félagsins í deildinni og sæti í Evrópukeppni tvö ár í röð. Þar á meðal er sæti í undanúrslitum Evrópukeppni vorið 2022,“ segir í yfirlýsingu Leicester.

Rodgers hefur verið þjálfari Leicester síðan árið 2018 en hann hafði þar áður verið knattspyrnustjóri hjá meðal annars Liverpool, Celtic og Swansea. Hann var afar nálægt því að gera Liverpool að Englandsmeisturum vorið 2014 en flestir muna vel eftir atvikinu þegar Steven Gerrard rann í leik gegn Chelsea sem varð til þess að Manchester City náði yfirhöndinni í titilbaráttunni.

Adam Sadler og Mike Stowell, þjálfarar aðalliðsins, taka við stjórnun liðsins sem á leik gegn Aston Villa á þriðjudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×