Innlent

Fluttur á slysa­deild eftir gamnis­lag

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Nóttin var erilsöm hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Nóttin var erilsöm hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Vísir/Vilhelm

Sex gista fangageymslur eftir erilsama nótt lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Á meðal þeirra er aðili sem grunaður er um að hafa verið að stela símum á skemmtistað í miðbænum. 

Þá var tilkynnt um mann sem hafði læst sig inni á baði á veitahúsi í miðbænum. Lögregla fór á vettvang og vísaði manninum út. Það sama var uppi á teningnum á hóteli í miðborginni en þar hafði maður einnig læst sig inni á baðherbergi og var vísað út af lögreglu. 

Tilkynnt var um mann að stela símum á skemmtistað í miðbænum. Lögregla fór á vettvang og var hann handtekinn grunaður um þjófnað. Gistir hann nú fangageymslu lögreglu í þágu rannsóknar.

Einn var fluttur á slysadeild eftir að hafa verið í „gamnislag“ við félaga sinn og hrasað fram fyrir sig, líkt og það er orðað í tilkynningu lögreglu.

Í Hafnarfirði var tilkynnt um mann sem var haldið niðri af dyraverði á skemmtistað.  Hann lét öllum illum látum þegar lögreglu bar að garði og var handtekinn og fluttur á lögreglustöð .

Lögreglu barst tilkynning um eld inni á baðherbergi á stoppistöð strætó. Þar hafði verið kveikt í sápuskammtara og voru minniháttar skemmdir.

Meðal annarra verkefna sem lögregla sinnti var maður sem neitaði að yfirgefa slysadeild, innbrot í heimahús í miðbænum, kvartanir vegna hávaða og þjófnaður í verslun. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×