Umfjöllun og viðtöl: Valur - Stjarnan 30-28 | Valur hafði betur eftir spennandi lokamínútur

Dagbjört Lena Sigurðardóttir skrifar
Valur - ÍBV. Olís deild kvenna vetur 2023 handbolti HSÍ.
Valur - ÍBV. Olís deild kvenna vetur 2023 handbolti HSÍ.

Valur vann mikilvægan tveggja marka sigur á Stjörnunni í Olís deild kvenna á Hlíðarenda í dag. Liðin sitja í 2. og 3. sæti deildarinnar og stigin tvö því dýrmæt. Valskonur voru með yfirhöndina bróðurhluta leiksins en liðið var með fjögurra marka forystu í hálfleik. Stjarnan gafst ekki upp en tókst þó ekki aldrei að jafna. Lokatölur voru 30-28.

Leikurinn byrjaði með hraði en Valskonur skoruðu mark í fyrstu sókn leiksins. Stjarnan svaraði í sömu mynt hinum megin. Valskonur náðu svo tveggja marka forystu eftir tæpar tíu mínútur og segja má að þá hafi þær hafi vaknað til lífsins því á næstu tíu mínútum náðu þær kafla þar sem þær skoruðu átta mörk gegn aðeins tveimur hjá Stjörnunni. Staðan því orðin 12-5 eftir 18. mínútna leik.

Stjarnan gaf þá í og í leið kviknaði á markvörslu liðsins. Náðu þær á næstu tíu mínútum að minnka forystuna niður í fjögur mörk. Skömmu síðar var leikurinn flautaður af og hálfleikstölur 16-12.

Bæði lið komu virkilega sterk til baka úr hálfleiknum en liðin skiptust á mörkum fyrstu sóknir síðari hálfleiks. Valskonur héldu sér þó í góðri forystu allt þar til á 43. mínútu en þá tókst Stjörnunni að minnka muninn í tvö mörk, í fyrsta skipti síðan í stöðunni 5-3.

Valskonur höfðu ekki gefið upp öndina og náðu aftur fjögurra marka forystu. Gaf þá Stjarnan í í enn eitt skiptið og tókst að minnka niður í eitt mark í stöðunni 29-28. Var þá aðeins mínúta eftir á klukkunni. Valur skoraði síðasta mark leiksins og sigraði því að lokum með tveimur mörkum, 30-28.

Afhverju vann Valur?

Valur mætti heilt yfir ákveðnari til leiks. Þær spiluðu góða vörn en þó ennþá betri sókn. Þær voru með góðan uppstilltan sóknarleik sem skilaði þeim 30 mörkum.

Hverjar stóðu upp úr?

Í liði Vals voru Þórey Anna Ásgeirsdóttir og Mariam Eradze markahæstar með fimm mörk hvor. Thea Imani Sturludóttir átti einnig virkilega góðan leik en hún skoraði fjögur mörk og var með sex löglegar stöðvanir í vörninni.

Helena Rut Örvarsdóttir var markahæsti leikmaður vallarins í dag með níu mörk. Lena Margrét var næst markahæst með sjö mörk. Darija Zecevic átti fínan leik í marki Stjörnunnar með 13 varða bolta sem skilaði henni 30% markvörslu.

Hvað gekk illa?

Stjörnunni gekk illa að ráða við hraða og ákveðnina í Valskonum. Þær einfaldlega vildu þetta meira. Voru bæði lið með þónokkuð marga tapaða bolta. Varnarleikur Stjörunnar var örlítið ábótavant í dag en munurinn á markatölunni hefði í raun getað verið meiri.

Hrannar Guðmundsson: Þær bara refsa okkur

„Ég er svekktur með að tapa. Alveg klárlega. Við ætluðum að koma og reyna að setja smá keppni í þetta með annað sætið. En þetta var frábær leikur. Ég hefði kannski viljað fá aðeins betri varnarleik en sóknarleikurinn frábær. En þetta bara fór sem fór.“ Hafði Hrannar að segja strax að leik loknum.

„Við vorum nú komin með þetta niður í eitt mark í lokin. En við vorum hérna eftir einhverjar tuttugu mínútur í fyrri hálfleik var staðan orðin 9-4 og það var vegna þess að við vorum búin að kasta boltanum hérna í innkast trekk í trekk. Það er bara ekki hægt á móti liði eins og Val. Þær eru með frábært lið og smá breydd. Þær bara refsa okkur fyrir þetta. Ég myndi kannski segja að leikurinn hafi farið þar. Ég er svekktur.“

„Við fáum hérna á okkur einhver 30 mörk. Mér fannst við vera kannski að gleyma okkur stundum. Gefa frá okkur mikið af ódýrum mörkum þannig ég myndi segja að varnarleikurinn hafi verið okkur að falli í dag.“ Sagði Hrannar að lokum.

Þórey Anna Ásgeirsdóttir: Þetta þýðir mikið fyrir okkur

„Ég er ótrúlega ánægð að hafa náð að klára þetta. Þetta var orðið ansi spennandi hérna undir lokin, ég held þær hafi nú náð þessu niður í eitt mark. En bara ótrúlega sátt með að ná að klára þetta og næla okkur í þessi tvö stig.“ Sagði Þórey Anna um sigurinn en hún skoraði fimm mörk.

„Við spiluðum mjög góða vörn í fyrri hálfleik og við vorum með klassa sóknarleik allan leikinn og ég held að það hafi verið það sem skóp sigurinn í dag.“

„Ég myndi segja að við höfum orðið pínu værukærar í seinni hálfleik á einhverjum tímapunkti þar sem við slúttum sóknunum kannski smá illa og lögðum okkur ekki alveg fram í vörn. En svo bara settum við allt í þetta og kláruðum þetta.“

„Þetta þýðir mikið fyrir okkur og núna er bara fókus á næsta verkefni sem er á miðvikudaginn á mót Haukum. Þannig við byrjum bara undirbúning fyrir það og þetta var svona jákvætt fyrir það.“ Hafði Þórey Anna að segja að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira