Handbolti

Lærisveinar Hannesar gerðu jafntefli við toppliðið

Smári Jökull Jónsson skrifar
Hannes Jón er á sínu öðru ári sem þjálfari Alpla Hard.
Hannes Jón er á sínu öðru ári sem þjálfari Alpla Hard. Vísir/Getty

Hannes Jón Jónsson og lærisveinar hans í Alpla Hard gerðu í kvöld jafntefli við topplið Krems í austurrísku úrvalsdeildinni í handknattleik í kvöld.

Hannes hefur verið verið stjórnvölinn hjá Alpla Hard síðan árið 2021 og er því á sínu öðru tímabili með liðið. Liðið lenti í öðru sæti í austurrísku deildinni í fyrra en sat í fjórða sæti deildarinnar fyrir leikinn í kvöld en mótherjarnir í Krems voru efstir.

Leikurinn í kvöld var jafn lengst af en gestirnir í Krems leiddu 14-11 í hálfleik. Í síðari hálfleik náðu leikmenn Alpla Hard að rétta úr kútnum og komust yfir í 23-22 undir lok leiksins eftir að hafa þá náð 8-2 áhlaupi.

Leikmenn Krems gáfust þó ekki upp og náðu að jafna metin með síðasta marki leiksins. Lokatölur 23-23 og Alpla Hard mistókst því að vera annað liðið í vetur til að leggja Krems að velli.

Eins og áður segir er Hannes Jón á sínu öðru ári með liðið en hann hefur einnig þjálfað Bietigheim í Þýskalandi og West Wien í Austurríki. Sigtryggur Daði Rúnarsson lék með Alpla Hard um tíma í vetur en hann var þá fenginn að láni frá ÍBV þegar austurríska liðið var í vandræðum vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×