Einn-einn-tveir dagurinn var haldinn hátíðlegur í Hörpu í dag. Þar er skyndihjálparmanneskja ársins útnefnd og hlotnaðist heiðurinn Arnóri Inga Davíðssyni frá Hveragerði en hann bjargaði lífi Bjarka litla bróður síns með réttum viðbrögðum.
„Já ég og bróðir minn vorum að leika okkur í Hamrinum í Hveragerði. Þetta er vinsæll leikvöllur í Hveragerði og svona hápunktur Hveragerðis eiginlega. Við vorum að leika okkur þarna og ætluðum að renna okkur niður, ég fer upp og ætla að renna mér þá finn ég koma á eftir mér fullt af snjó og hann er fyrir neðan. Snjórinn lendir á honum þar sem eru tré á sama stað. hann festist við tré og með meters lag af snjó ofaná sér.“
Arnór hringdi beint í einn-einn-tvo og starfsmaður Neyðarlínunnar var með honum í símanum þar til hjálp barst.

„Þau hjálpuðu mér ógeðslega vel í gegnum þetta. Þau sögðu mér bara að róa mig og halda honum andandi og bara slaka á.“
Það var samt ekki auðvelt.
„Mér leið hræðilega. Mér leið ömurlega. Ég skalf og var stressaður. Versta móment sem ég hef upplifað og mun einhverntíman upplifa. Ég vil aldrei lenda í svona aftur.“
Allir ættu að kunna skyndihjálp.
„Ég hvet alla til þess að læra skyndihjálp. Að læra eins fljótt og maður getur, vera bara ungur og hafa reynslu. Það er gott.“