Fótbolti

Fyrrverandi leikmaður Newcastle grafinn undir rústum eftir jarðskjálftann mikla

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Christian Atsu var á mála hjá Newcastle United á árunum 2016-21.
Christian Atsu var á mála hjá Newcastle United á árunum 2016-21. getty/Serena Taylor

Leit stendur nú yfir að ganverska fótboltamanninum Christian Atsu. Talið er að hann hafi grafist undir rústum eftir jarðskjálftann mikla í Tyrklandi.

Jarðskjálfti að stærð 7,8 reið yfir í suðausturhluta Tyrklands í nótt. Talið er að minnsta kosti 1.300 manns hafi látist vegna jarðskjálftans og óttast er að sú tala komi til með að hækka eftir því sem líður á. Í viðtali við Vísi lýsti landsliðsmaðurinn Birkir Bjarnason, sem leikur með Adana Demirspor, ástandinu sem skelfilegu. Hann og kærasta hans eru heil á húfi.

Atsu leikur með Hatayspor sem er í borginni Kahramanmaras. Samkvæmt tyrkneskum fjölmiðlum grófust nokkrir leikmenn liðsins undir rústum eftir jarðskjálftann mikla en þeim var bjargað. 

Atsu var ekki þar á meðal og leit stendur nú yfir að honum. Sömu sögu er að segja af íþróttastjóra Hatayspor, Taner Savut.

Atsu, sem er 31 árs, tryggði Hatayspor sigur á Kasimpasa í tyrknesku úrvalsdeildinni í gær með marki í uppbótartíma. Það var hans fyrsta mark fyrir félagið.

Chelsea keypti Atsu frá Porto 2013. Hann lék aldrei leik fyrir aðallið Chelsea en var lánaður víða, meðal annars til Newcastle sem keypti hann svo 2017. Atsu lék 86 leiki fyrir Newcastle og skoraði þrjú mörk. Hann yfirgaf Newcastle 2021 og gekk þá í raðir Al-Raed í Sádí-Arabíu. Atsu hefur leikið 65 landsleiki fyrir Gana og skorað níu mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×