„Þær voru mjög hrifnar af safninu,“ segir Sigríður Rósa Sigurðardóttir, safnstýra Smámunasafnsins í samtali við Vísi. Fyrst frá greint frá hinni óvæntu heimsókn Foster og eiginkonu hennar, Alexöndru Hedison, á Akureyri.net, í gærkvöldi.
Sigríður Rósa segist hafa fengið símtal síðastliðinn mánudag frá bílstjóra sem áður hafði komið í heimsókn á safnið. Sagðist hann vera með nokkra gesti sem hefðu mikinn áhuga á því að skoða safnið. Safnið hefur verið lokað og er óvissa um framtíð þess, þar sem til stendur að selja Sólgarð, húsið sem hýsir safnið í Eyjafjarðarsveit.
Magnús Hlynur Hreiðarsson skellti sér á Smámunasafnið í Eyjafirði í sumar, en þar má um fimmtíu þúsund hluti sem Sverrir Hermannsson safnaði.
Lítið mál var að verða við heimsóknarbeiðninni. Segir Sigríður Rósa að henni hafi fundist hópurinn eitthvað kunnuglegur þegar hann renndi í hlað.
„Ég var alltaf að kíkja eitthað á Jodie því mér fannst ég eitthvað kannast við hana. Ég er svolítið ómannglögg. Svo brosti hún og þá fattaði ég strax hver þetta var,“ segir Sigríður Rósa.
Njóta lífsins fyrir norðan
Jodie er sem kunnugt er stödd hér á landi við tökur á fjórðu þáttaröð spennuþáttanna True Detective. Tökur standa nú yfir á Dalvík og dvelja Jodie og eiginkona hennar fyrir norðan á meðan tökunum stendur. Hafa þær meðal annars skellt sér á skíði í Hlíðarfjalli við Akureyri og notið norðurljósana, eins og sjá á má þessari mynd sem Alexandra deildi á Instagram í morgun.
„Þær vöktu athygli á því hvað þetta væri falleg sveit og hvað safnið væri á frábærum stað og voru með fullt af hugmyndum,“ segir Sigríður Rósa.
Sem fyrr segir er óvissa um framtíð safnsins þar sem á dagskrá er að selja Sólgarð. Mögulegt er að safnið fylgi með í sölunni.
Jodie og Alexandra fengu að skoða safnið hátt og lágt og ýmsa muni sem ekki eru til sýnis.
„Þeim fannst þetta alveg stórkostlegt,“ segir Sigríður Rósa og bætir að þetta hafi hún fengið staðfest frá bílstjóra þeirra, en hún hefur verið í sambandi við hann til að fá leyfi til að birta myndina sem fylgir fréttinni, sem tekin var Alexöndru, eiginkonu Jodie.
Þær virðast vera miklir áhugamenn um listir og menningu. Segir Sigríður Rósa að þær hafi borið safnið saman við önnur söfn sem þær hafi farið á og varpað fram ýmsum hugmyndum um Smámunasafnið. Aðspurð um hvort að hin óvænta Hollywood-heimsókn muni mögulega verða til þess að bjarga safninu, stendur ekki á svari hjá Sigríðu Rósu.
„Ég vona það innilega. Ég er búin að læra það á minni ævi að allt getur gerst. Einhverja hluta vegna kom ein af stærstu Hollywood-stjörnunum á Smámunasafnið. Ég held að það sé einhver tilgangur með því. Ég fer ekki ofan af því. Hlutirnir gerast, þeir gerast eins og þeir eiga að gerast.“
Fréttamaður leit við á Dalvík á tökunum þar sem tökur á True Detective fara fram.