Húseigendur á Amtmannsstíg hafa brugðið á það ráð að setja litla umferðarkeilu fyrir framan hús þar sem miklir klakabunkar hafa safnast fyrir í þakrennu. Sigrún Þorsteinsdóttir, forvarnafulltrúi vátryggingafélagsins VÍS, er ekki viss um að slíkar ráðstafanir séu nægjanlegar.
„Vissulega er þetta betra en ekki neitt en við myndum vilja sjá þetta betur gert. Og nota borða til að afmarka svæðið almennilega. Því það þarf ekki endilega að búast við því að almenningur sé að horfa upp fyrir sig þegar það er að labba um. Húseigendur þurfa svolítið að huga að þessu og fá þá bara fagaðila í verkið ef þeir ná ekki að gera það sjálfir, en maður á náttúrulega aldrei að setja sig í hættu við að ná þessu niður. En þetta er stórhættulegt,“ segir Sigrún.
Hver ber ábyrgð ef eitthvað gerist?
„Það er svolítið mismunandi. Það getur verið húseigandi, það getur líka verið þeir sem eru að ganga undir. En þetta er húseigandans að passa upp á að það sé í lagi með svæðið þar sem þetta er. Við hvetjum fólk, á fimmtudag og föstudag því þá fer að hlýna, þá á þetta allt eftir að koma niður. Við eru að sjá fullt af tjónum í þakköntum hjá okkur, höfum áhyggjur af pöllunum líka sem eru við sumarhús og fleiri heimili.“
Hún brýnir fyrir húseigendum að moka frá veggjum, passa upp á svalir og moka af þeim. Í kortunum eru hlýindi í veðri og sjá vátryggingafélög því fram á vatnstjón: „Nóg er af þeim í dag bara út frá álagi á kerfin á heimilum og í fyrirtækjum.“
