Handbolti

Björgvin Páll ætti að vera búinn að verja miklu fleiri skot

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgvin Páll Gústavsson kemur ekki allt of vel út úr nýrri tölfræði HB Statz.
Björgvin Páll Gústavsson kemur ekki allt of vel út úr nýrri tölfræði HB Statz. Vísir/Hulda Margrét

Landsliðsmarkvörðurinn Björgvin Páll Gústavsson kemur ekki allt of vel út í nýrri Xs tölfræði HB Statz handboltatölfræðivefarins.

Líkt og við þekkjum sem Xg í fótboltanum þá hefur HB Statz reiknað úr slíka tölfræði fyrir handboltann.

XG hefur verið þýtt em vænt mörk eða markalíkur en þar eru reiknaðar út samanlagðar líkur á marki hjá viðkomandi leikmanni út frá þeim færum sem hann hefur fengið í leiknum.

HB Statz reiknar bæði xg, líkur á marki, sem og xs sem er líkur á vörðu skoti markvarða.

Athygli vekur að þessi tölfræði sýnir að landsliðsmarkvörðurinn Björgvin Páll Gústavsson hafi í raun átt að verja næstum því tuttugu fleiri skot en hann hefur varið.

Björgvin Páll hefur varið 142 skot í Olís deild karla í vetur en ætti samkvæmt Xs að vera búinn að verja 161,9 skot. Björgvin sker sig nokkuð úr frá öðrum markvörðum en Lárus Helgi Ólafsson hjá Fram ætti líka að vera búinn að verja fleiri skot. Lárus Helgi hefur varið 114 skot en ætti að vera búinn að verja 125,2.

ÍR-ingurinn Ólafur Rafn Gíslason og Gróttumaðurinn Einar Baldvin Baldvinsson hafa hins vegar báðir varið mun fleiri skot en Xs bjóst við. Ólafur Helgi ætti að bara að vera búinn að verja 139,4 skot en hefur varið 149 skot. Einar Baldvin hefur varið 143 skot en ætti bara að vera búinn að verja 132,8 skot.

Hér fyrir neðan má sjá þessa tölfræði úr Olís deild karla, fyrst Xg og svo Xs með því að fletta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×