Hann segir þó margt óljóst, til að mynda um hver ætti að framkvæma meðferðina en geðlæknar séu nú þegar önnum kafnir og ekki hlaupið að því að bjóða upp á meðferðir fyrir marga.
„Það er mjög mikilvægt að fólk fari ekki fram úr sér og draga ekki of miklar ályktanir af þessum rannsóknum en ég vil samt segja að mér finnst svona meiri líkur en minni á því að það muni koma eitthvað jákvætt út úr þessu og þetta muni komast í einhvers konar notkun hjá fólki með geðraskanir, við vitum bara ekki alveg í dag fyrir hverja og við vitum ekki alveg hver áhættan er til lengri tíma og þess háttar,“ sagði Karl Reynir í Reykjavík Síðdegis á Bylgjunni í dag.
Mikilvægt að draga ekki of víðtækar ályktanir
Hann segir fjölmargar rannsóknir vera í gangi um allan heim núna og niðurstaða þeirra sé að vænta á allra næstu árum, til dæmis hvað varðar meðhöndlun þunglyndis með sílósíbíni.
„Þessar rannsóknir lofa góðu en maður verður samt að hafa í huga að draga ekki of miklar ályktanir af þeim. Vegna þess að þessar rannsóknir eru þannig gerðar að þetta er alveg sérvalinn hópur fólks sem er tekinn inn í rannsóknirnar. Þannig að það er ekkert hver sem er, til dæmis með þunglyndi, sem samþykkir að taka þátt í rannsókn á svona hugvíkkandi efnum. Þannig að strax þar er búið að velja ákveðinn hóp sem er svolítið jákvæður gagnvart þessu,“ segir Karl Reynir.
Þá séu margir útilokaðir úr rannsóknunum sem glíma við aðra geðræna kvilla á borð við geðhvörf.
Viðtal við Karl Reyni í Reykjavík síðdegis má heyra í spilaranum hér að neðan: