Tilboði Eflingar fylgir útfærsla á nýrri launatöflu sem gerir ráð fyrir hækkunum á bilinu 40 til 59 þúsund krónur. Til viðbótar komi 15 þúsund króna framfærsluuppbót, sama upphæð og lagt var upp með í tilboði Eflingar frá 12. desember, en nú sé boðið að uppbótin verði utan við grunnlaun og hækki því ekki vakta- og yfirvinnuálag.
„Og við förum fram á það að sú tafla sem um semst sé í samræmi við það sem kemur Eflingarfólki best en við séum ekki þvinguð til að taka við niðurstöðu sem hentar okkur alls ekki,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að eftir miðvikudag næstkomandi 11. janúar væri afturvirkni samninga út úr myndinni.
Sólveig Anna gefur lítið fyrir þau ummæli.
„Hvort það verði á endanum svo að afturvirkni samningsins verði tekin af Eflingarfólki, við auðvitað hlustum ekki á þessar hótanir. Við höfum gert kröfu um það að afturvirknin verði, líkt og hún hefur verið í öðrum samningum sem Samtök atvinnulífsins hafa gert, og það er bara okkar eindregna afstaða að svo verði,“ segir Sólveig.
Verkfallsundirbúningur yrði næsta skref
Tilboð Eflingar rennur út á hádegi á morgun og ljóst að tíminn er naumur. Halldór Benjamín sagðist í samtali við Ríkisútvarpið í morgun að hann væri ekki ýkja bjartsýnn á framhaldið. En hvað segir Sólveig Anna?
„Það sem ég er bjartsýn á er það að samninganefnd Eflingar nái að gera kjarasamning sem hentar félagsfólki Eflingar.“
Er þetta það lengsta sem verður komist að ykkar hálfu?
„Ja, við segjum í tilboðinu að fari svo að SA hafni alfarið þessu tilboði sem grundvelli að frekari viðræðum þá munum við slíta viðræðunum og hefja þá undirbúning næsta fasa.“
Sem er þá hver?
„Sem er þá að hefja verkfallsaðgerðaundirbúning.“