Síðasti fundur samninganefndanna fór fram 22. desember, þegar Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, kynnti nýtt tilboð Eflingar í kjaradeilunni. Tilboðið fól meðal annars í sér að hagvaxtaraukinn sem greiða á í vor samkvæmt nýútrunnum samningi myndi falla niður en verða bættur upp með öðrum launaliðum.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, sagði eftir fundinn að tilboðið gæti aldrei orðið grundvöllur kjarasamnings, þar sem kröfur Eflingar væru ekki í neinum takti við þær línur sem hefðu verið lagðar í kjarasamningum við Starfsgreinasambandið og VR.
Upphafleg kröfurgerð Eflingar fól í sér 167 þúsund króna hækkun allra launa á þremur árum. Í henni sagði meðal annars að áróðursmaskína auðmagnseigenda hefði verið sett í gang í aðdraganda kjarasamninga og að boðskapurinn væri sá að það væri stórhættulegt að greiða verkafólki mannsæmandi laun.
Hljómur þessa málflutnings hefði alltaf verið holur en aldrei falskari en nú.