Innherji

Árslisti Innherja - síðari hluti

Ritstjórn Innherja skrifar
Innherji óskar lesendum gæfuríks komandi árs.
Innherji óskar lesendum gæfuríks komandi árs. Vísir/Vilhelm

Viðburðaríkt ár er að baki og því við hæfi að líta um öxl. Innherji lætur sitt ekki eftir sitja í þeim efnum og hefur tekið saman árslistann 2022 um atburði, ummæli og athafnir sem ekki mega falla í gleymsku.

Innsláttarvilla Seðlabanka Íslands orsakaði 150 milljarða skekkju í opinberum gögnum um lánveitingar til fyrirtækja.Seðlabanki Íslands

Ofmat ársins: Þegar Seðlabanki Íslands birti tölur um útlán til fyrirtækja í september síðastliðnum rak marga í rogastans. Útlán höfðu aukist um 240 milljarða milli ára. Viðlíka tölur á einum ársfjórðungi höfðu ekki sést frá árinu 2008 þegar meiriháttar tilfæringar áttu sér stað á efnahagsreikningum stórra fyrirtækja á Íslandi. Fljótlega kom á daginn að um innsláttarvillu var að ræða sem hafði þær afleiðingar að útlánavöxturinn var ofmetinn um litla 150 milljarða á öðrum ársfjórðungi. En það kom ekki í ljós fyrr en fjölmiðlar höfðu slegið upp stórfrétt um metvöxt útlána í kjölfar ítrekaðra vaxtahækkana Seðlabankans mánuðina á undan.

Rekstrarviðsnúningur ársins: Örfáum vikum fyrir sveitarstjórnarkosningar birti Reykjavík uppgjör fyrir árið 2021 og lýsti yfir tímamótaárangri við fjármálastjórnun íslenskra sveitarfélaga. Skömmu eftir kosningar birtist svo uppgjör fyrir fyrstu sex mánuði árins 2022. Þar er stöðunni með töluvert frábrugðnum hætti og fjármál borgarinnar sögð í járnum.

Sólveig Anna Jónsdóttir, sendi skýr skilaboð til allra starfsmanna Eflingar að þeir væru sannarlega ekki ómissandi.Vísir/Vilhelm

Hópuppsögn ársins: Eftir að Sólveig Anna Jónsdóttir og Viðar Þorsteinsson náðu aftur undirtökum í stéttarfélaginu Eflingu var ráðist í hreinsanir á skrifstofum félagsins. Nánast öllum starfsmönnum var hent út öfugum, mörgum hverjum eftir langan starfsferil hjá stéttarfélaginu. Fyrir vikið lamaðist starfsemi Eflingar um dágóða hríð. En auðvitað þarf að brjóta nokkur egg til að búa til eggjaköku.

SUSari ársins: „Hvers vegna á ríkið að eiga banka og binda fjármuni sína í fjármálastofnunum sem bankarnir fengu til dæmis í stöðugleikaframlaginu? Ríkið hefur engin áhrif á rekstur, vaxtastig, útlán eða almenna þjónustu eða viðskiptakjör við almenning í landinu.“ 

Hér er ekki um að ræða ályktun frá síðasta ársþingi Sambands ungra sjálfstæðismanna heldur heldur aðsenda grein í Fréttablaðinu, skrifaða af Lilju Rafneyju Pálmadóttur, varaþingmanni Vinstri grænna.

Bjarna Bjarnasyni, forstjóra OR, er uppsigað við Seðlabanka Íslands.

Tuð ársins: Við birtingu uppgjörs Orkuveitunnar fyrir þriðja ársfjórðung rak marga í rogastans. Afkoma samstæðunnar var neikvæð á tímabilinu, ólíkt hinu stóra orkufyrirtækinu á Íslandi sem skilaði metafkomu. Í uppgjörstilkynningu Orkuveitunnar hnýtir Bjarni Bjarnason, fráfarandi forstjóri Orkuveitunnar, í vaxtahækkanir Seðlabanka Íslands – sem hann kallaði „annan arm ríkisvaldsins.“ Var þar um að ræða sneið til Seðlabanka Íslands, sem hefur líkt og nánast allir aðrir seðlabankar heims (utan þess tyrkneska sem glímir, fyrir vikið, við tæplega 90 prósenta verðbólgu) hækkað vexti á undanförnum mánuðum. 

Spennandi verður að lesa næsta ávarp forstjóra Orkuveitunnar, sem skuldar jafnvirði tugi milljarða í evrum og dollurum, og sjá hvaða pillur Jerome Powell og Christine Lagarde fá í sinn hlut.

Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði tók að sér að diffra heimsfaraldur Covid-19.Almannavarnir

Spálíkan ársins: Eftir að heimsfaraldrinum lauk lögum samkvæmt í febrúar síðastliðnum þurftu landsmenn líka að horfa á eftir reglulegri umfjöllun um spálíkan tölfræðingsins Thors Aspelund. Reyndar gerðist það reglulega að spálíkan Thors reyndist gefa ónákvæmar eða jafnvel rangar niðurstöður um væntanlegan framgang faraldursins. 

En það var bara vegna þess að veiran hagaði sér ekki í samræmi við líkanið. Spennandi verður að fylgjast hvernig Thor muni ganga að diffra næsta faraldur.

Umsækjandi ársins: Glúmur Baldvinsson náði ekki kjöri í síðustu Alþingiskosningum þrátt fyrir eftirminnilega framgöngu í kappræðum í sjónvarpssal. Eftir sveitarstjórnakosningar í vor sótti Glúmur um fjöldann allan af stjórnunarstöðum hjá sveitarfélögum vítt og breitt um landið. Nánar tiltekið sóttist Glúmur eftir stöðu sveitastjóra Rangárþings ytra, Húnabyggðar, Grímsness, Reykhólahrepps, Svalbarðshrepps, Norðurþings – sem og bæjarstjórastöðu Hveragerðis, Mosfellsbæjar og Voga. Lögmál framboðs og eftirspurnar hefur sjaldan sannað sig eins rækilega.

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, bauð upp á aðventustund í Kópavogi þar sem gildi jafnaðarstefnunnar voru fléttuð inn í boðskap jólanna.Samfylkingin

Aðventustund ársins: „Notaleg stund í aðdraganda jóla. Skoðum grunngildi jafnaðarfólks í tengslum við boðskap jólanna.“ Svona var nýafstaðin aðventustund með Kristrúnu Frostadóttur auglýst, en um var að ræða viðburð á vegum Samfylkingarinnar í Kópavogi. Aðgangur var ókeypis.

Myndlíking ársins: „Það er ekki verið að breyta einhverju einu atriði heldur er verið að rústa öllu kerfinu. Þetta er bara eins og innrásin í Úkraínu, það er öllu rústað. Allt brotið og bramlað,“ sagði Daníel O. Einarsson, formaður Bandalags íslenskra leigubifreiðastjóra um löngu tímabærar breytingar á lagaumhverfi um rekstur leigubíla. Fjölmiðlar hafa ekki leitað viðbragða stríðshrjáðra Úkraínumanna í kjölfar þessarar samlíkingar.

Heitur pottur ársins: Viðgerðum lauk á heitum potti í Sundhöll Seyðisfjarðar í ágúst síðastliðnum við mikinn fögnuð bæjarbúa.

Gleðilegt ár. 


Tengdar fréttir

Árslisti Innherja - fyrri hluti

Viðburðaríkt ár er að baki og því við hæfi að líta um öxl. Innherji lætur sitt ekki eftir sitja í þeim efnum og hefur tekið saman árslistann 2022 um atburði, ummæli og athafnir sem ekki mega falla í gleymsku. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×