Innlent

Gul við­vörun vegna snjó­komu á að­fanga­dag

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Reikna má með talsverðri snjókomu á Suðurlandinu á morgun, aðfangadag.
Reikna má með talsverðri snjókomu á Suðurlandinu á morgun, aðfangadag. Vísir/Vilhelm

Gul viðvörun er í gildi fyrir Suðurland frá aðfangadagsmorgni til miðnættis annað kvöld. Talsvert gæti snjóað á morgun á sunnan- og vestanverðu landinu sem og við norðurströnd landsins.

Viðvörunin er vegna talsverðrar snjókomu og tekur gildi klukkan níu á morgun, aðfangadag. Hún er sem fyrr segir í gildi til miðnætts. Von er á austan- og norðaustan 10-18 metrum á sekúndu, auk snjókomu sem mun sums staðar verða talsverð.

Kertasníkir kemur með gula viðvörðun í skóinn fyrir sunnlendinga.Vísir/Vilhelm

Viðvörunina má rekja til þess að nokkrir snjókomubakkar koma inn yfir sunnan- og vestanvert landið á morgun, en einnig með norðurströndinni.

Talsvert getur snjóað úr þeim þar sem þeir lenda og þá spillist færð. Veðurstofan bendir hins vegar á að færð sé hins vegar víðast hvar góð í dag, og eru þeir sem hyggja á langferðir hvattir til að nýta daginn í dag til ferðalaga ef þeir vilja komast greiðlega á áfangastað.

Veðurhorfur á landinu

Norðaustlæg eða breytileg átt 3-10 m/s og bjartviðri, en dálítil él norðan- og austanlands. Frost 4 til 18 stig. Þykknar upp sunnantil í kvöld.

Breytileg átt 5-15 á morgun og allvíða snjókoma eða él, en yfirleitt þurrt austanlands. Dregur heldur úr frosti.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á sunnudag (jóladagur):

Norðaustan 8-18 m/s, hvassast austantil. Snjókoma eða él, en úrkomulítið á Suður- og Vesturlandi síðdegis. Frost 2 til 13 stig.

Á mánudag (annar í jólum):

Austlæg eða breytileg átt 5-13 og él á víð og dreif, en snjókoma suðaustantil. Frost 3 til 15 stig.

Á þriðjudag:

Austlæg eða breytileg átt 5-15 og dálítil él, en snjókoma austast. Áfram kalt í veðri.

Á miðvikudag:

Norðaustlæg átt og dálítil él norðan- og austanlands, annars þurrt að kalla. Frost 3 til 12 stig.

Á fimmtudag:

Breytileg átt og él á víð og dreif. Kalt í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×