Rafrænni atkvæðagreiðslu lauk í hádeginu en hún stóð yfir frá 9. til 19. desember. Í heildina var kjörsókn 16,56%, já sögðu 85,71% en nei sögðu 11%. 3,29% tóku ekki afstöðu. Á kjörskrá voru 23.711 manns.
Niðurstöðurnar voru afgerandi í öllum félögunum, en í 15 af 17 félögum var samningurinn samþykktur með yfir 80% atkvæða.
Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS, segir félagsmenn hafa setið undir áróðri frá Eflingu sem finni samningnum allt til foráttu. Hann vísar til þess að fjölmargar greinar hafi verið skrifaðar þess efnis.
„Það var ályktun birt á sömu mínútu og atkvæðagreiðslan hófst. Starfsmaður Eflingar, Stefán Ólafsson, skrifaði grein og gagnrýndi samninginn. Síðast í gær kom grein eftir formann Eflingar í sama anda,“ segir Vilhjálmur.

„Þessi niðurstaða í ljósi alls þessa er alveg ótrúleg í mínum huga og staðfestir það sem við vorum algjörlega sannfærð um. Þetta er ótrúlega góður kjarasamningur,“ segir Vilhjálmur.
Það sé skoðun fólksins, félagsmanna, sem skipti máli. Stóri dómur sé fallinn.
„Fólk byggir lifibrauð sitt á þessu og er sammála okkur í SGS að þetta hafi verið góður samningur. Það er hinn stóri dómur. Það er fólkið sjálft sem kveður upp þennan endanlega úrskurð.“
Samningurinn, sem undirritaður var 3. desember síðastliðinn, telst því samþykktur hjá eftirfarandi félögum: AFLi Starfsgreinafélagi, Öldunni stéttarfélagi, Bárunni stéttarfélagi, Drífanda stéttarfélagi, Einingu-Iðju, Framsýn stéttarfélagi, Stéttarfélagi Vesturlands, Stéttarfélaginu Samstöðu, Verkalýðsfélagi Akraness, Verkalýðs- og sjómannafélagi Bolungarvíkur, Verkalýðs- og sjómannafélagi Sandgerðis, Verkalýðsfélagi Snæfellinga, Verkalýðsfélagi Suðurlands, Verkalýðsfélagi Vestfirðinga, Verkalýðsfélagi Þórshafnar, Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis og Verkalýðsfélaginu Hlíf.