Fótbolti

Mikið áfall fyrir Miedema | HM í hættu

Valur Páll Eiríksson skrifar
Miedema í baráttunni við Glódísi Perlu Viggósdóttur í leik Íslands og Hollands.
Miedema í baráttunni við Glódísi Perlu Viggósdóttur í leik Íslands og Hollands. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Vivianne Miedema, framherji Arsenal á Englandi og hollenska landsliðsins, sleit krossband í vikunni. Enska félagið staðfesti tíðindin í dag.

Miedema fór meidd af velli er Arsenal tapaði fyrir Lyon í Meistaradeild Evrópu í vikunni og þótti ljóst að meiðslin væru alvarleg. Arsenal staðfesti í dag að um krossbandaslit væri að ræða.

Miedema hefur verið á meðal allra bestu framherja heims undanfarin ár en hún hlaut gullskóinn í ensku úrvalsdeildinni árin 2019 og 2020. Hún var þá valin í lið ársins í ár.

Miedema var hluti af hollenska landsliðinu sem lagði Ísland í lokaleik riðlakeppninnar í forkeppni HM þar sem Holland vann 1-0 með dramatísku sigurmarki og tryggði HM sæti sitt á kostnað Íslands.

Ljóst er að hún verður nú í kapphlaupi við tímann um að taka þátt á mótinu sem hefst 20. júlí á næsta ári, eftir slétta sjö mánuði. Hálft ár er yfirleitt lágmarkstíminn sem tekur leikmenn að jafna sig á krossbandaslitum, í mörgum tilfellum dregst meðferðartíminn upp í 12 mánuði.

Miedema var hluti af hollenska landsliðinu sem fagnaði sigri á EM árið 2017.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×