Sextíu þúsund króna eingreiðsla til öryrkja- og endurhæfingarlífeyrisþega var fyrsta mál á dagskrá þingfundar sem hófst í morgun. Þingmaður Samfylkingar sagði fyrirheit stjórnarliða um heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu orðið að réttlætingu fyrir því að neita fólki um kjarabætur hér og nú.
Forstöðumaður Fjölmenningarseturs segir frásögn af fordómafullri framkomu strætóbílstjóra, sem vakið hefur mikla athygli á samfélagsmiðlum, ekki koma sér á óvart. Hún hafi ítrekað heyrt af sambærilegum málum og kallar eftir úrbótum. Framkvæmdastjóri hjá Vegagerðinni segir að málið verði skoðað.
Úkraínskt-íslenskt jólaball verður haldið í samfélagshúsi fyrir flóttamenn frá Úkraínu í dag. Von er á um sexhundruð manns í hangikjöt og annan jólamat. Talsmaður samtakanna sem skipuleggur ballið þakkar Íslendingum fyrir velvild í garð flóttamanna. Þetta og margt fleira í hádegisfréttum Bylgjunnar klukkan 12.